Fótbolti

Strákarnir æfa á keppnisvellinum í dag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Konya skrifar
Ísland mun æfa á keppnisvellinum í Konya, hinum glæsilega Torku Arena, í hádeginu að staðartíma.

Íslenska landsliðið ásamt starfsliði, starfsmönnum KSÍ, fjölmiðlum og stuðningsmönnum kom beinu flugi til Konya í gær.

Blaðamannafundur verður haldinn fyrir æfinguna í dag og mun Vísir vitanlega flytja fregnir af honum um leið og unnt er.

Landsliðið varð fyrir áfalli í gærmorgun þegar Hannes Þór Halldórsson fór úr axlarlið á æfingu og er talið að hann verði lengi frá, jafnvel hálft ár. Kári Árnason kom hins vegar með liðinu til Tyrklands eftir að hafa fengið högg á bakið í 2-2 jafnteflinu gegn Lettlandi á laugardag.

Ísland er þegar komið áfram á EM 2016 í knattspyrnu sem fer fram í Frakklandi á næsta ári. Tyrkjar þurfa hins vegar helst stig úr leiknum á morgun til að tryggja sér þriðja sæti riðilsins og þátttökurétt í umspilskeppninni í nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×