Erlent

Páfi gagnrýnir bandaríska þingmenn

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Frans páfi ávarpar þjóðþingið í Washington.
Frans páfi ávarpar þjóðþingið í Washington. NordicPhotos/AFP
Frans páfi kom inn á fjölmörg umdeild pólitísk stórmál í ávarpi sínu á Bandaríkjaþingi í gær, þar sem hann hvatti meðal annars þingið til að afnema dauðarefsingu.

„Ég er sannfærður um að þessi leið er best vegna þess að hvert einasta mannslíf er heilagt, hver einasti maður er gæddur óafsalanlegri virðingu, og samfélagið getur ekki annað en hagnast á því að endurhæfa þá sem hlotið hafa dóm fyrir glæpi,“ sagði páfi við þingmennina, sem flestir hverjir hafa ekki viljað láta sér til hugar koma að afnema dauðarefsingu í Bandaríkjunum.

Hann gagnrýndi einnig harðlega vopnaframleiðsluiðnaðinn og hvatti þingið til að grípa til aðgerða í loftslagsmálum.

Páfinn sagði kapítalískt þjóðskipulag meingallað og ræddi einnig um mikilvægi þess að taka vel á móti innflytjendum, einnig þeim sem komið hafa ólöglega til landsins.

„Þetta segi ég ykkur sem sonur innflytjenda, í fullri vissu þess að mörg ykkar eru einnig afkomendur innflytjenda,” sagði Frans páfi í ávarpi sínu.

Allt gengur þetta þvert gegn stefnu flestra þeirra þingmanna, sem nú sitja á Bandaríkjaþingi.

Enginn páfi hefur áður komið í ræðustól á Bandaríkjaþingi, en þetta er í þriðja skipti sem páfi kemur til Bandaríkjanna. Jóhannes Páll II. kom þangað árið 1979 og Benedikt XVI. síðan árið 2008.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×