Erlent

Palestínski fáninn fær að flagga hjá Sameinuðu þjóðunum

Vaka Hafþórsdóttir skrifar
Ung stúlka með palestínska fánann í flóttamannabúðum í Líbanon.
Ung stúlka með palestínska fánann í flóttamannabúðum í Líbanon. Vísir/AFP
Meirihluti aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt að fáni Palestínu fái að flagga ásamt öðrum fánum aðildarríkja fyrir framan höfuðstöðvar stofnunarinnar í New York.

Palestína er ekki fullgilt aðildarríki Sameinuðu þjóðanna heldur aðeins áheyrnarfulltrúi. Aðeins einn annar áheyrnarfulltrúi er að stofnuninni en það er Vatíkanið. 119 aðildarríki af 193 samþykktu ályktunina en átta kusu gegn henni og voru Bandaríkin og Ísrael þar á meðal. Flest ríki Evrópusambandsins sátu hjá við atkvæðagreiðsluna en Frakkland, Svíþjóð og Pólland voru meðal þeirra landa sem samþykktu tillöguna.

Rami Hamdallah, forsætisráðherra Palestínu, segir þetta vera skref í átt að viðurkenningu Palestínu sem fullgilds aðildarríkis Sameinuðu þjóðanna. Ron Proser, fastafulltrúi Ísraels hjá Sameinuðu þjóðunum, gagnrýndi þingið fyrir að samþykkja ályktunina og sagði þingið myndi kjósa að lýsa jörðinni sem flatri ef Palestínumenn myndu láta sér detta í hug að leggja það fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×