Enski boltinn

Gasol fór hamförum í framlengdum sigri Spánar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Pau Gasol var geggjaður í kvöld.
Pau Gasol var geggjaður í kvöld. vísir/getty
Spænska landsliðið er komið í úrslit á EM 2015 í körfubolta eftir fimm stiga sigur gegn Frakklandi, 80-75, í framlengdum undanúrslitaleik í Lille í Frakklandi í kvöld.

Leikurinn var ótrúlega jafn og spennandi, en þegar 16 sekúndur voru eftir komust Spánverjar þremur stigum yfir, 66-63. Nicolas Batum, leikmaður Charlotte Hornets, jafnaði aftur á móti metin með þriggja stiga körfu, 66-66, í næstu sókn og þurfti að grípa til framlengingar.

Þar reyndust Spánverjar sterkari og skoruðu 14 stig gegn níu, en sigurinn geta þeir meira og minna þakkað NBA-ofurstjörnunni Pau Gasol.

Miðherjinn magnaði er búinn að vera frábær í útsláttarkeppninni, en hann skoraði 40 stig í kvöld og tók ellefu fráköst. Tony Parker skoraði tíu stig og gaf sex stoðsendingar fyrir Frakka.

Frakkar eru ríkjandi Evrópumeistarar en verða nú að láta sér það nægja að spila um bronsið á heimavelli.

Spánn mætir annaðhvort Litháen eða Serbíu í úrslitaleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×