Íslenski boltinn

Gylfi Þór: Erum á leiðinni niður í bæ að fagna með fólkinu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór á fleygiferð í kvöld.
Gylfi Þór á fleygiferð í kvöld. vísir/vilhelm
"Ég var bara að hugsa um Frakkland," sagði Gylfi Þór Sigurðsson, miðjumaður íslenska landsliðsins, brosmildur við Vísi eftir leik, aðspurður hvað fór í gegnum huga hans í uppbótartímanum, manni færri.

Ísland gerði markalaust jafntefli við Kasakstan í Dalnum í kvöld en það var nóg til að fleyta liðinu á stórmót í fyrsta sinn. Ísland verður á EM 2016 í Frakklandi næsta sumar.

"Þetta er búið að vera draumur síðan ég var pinkulítill. Flestir sögðu að maður myndi aldrei ná að spila á stórmóti en þið sjáið hvað við erum búnir að búa til hérna með íslensku þjóðinni," sagði Gylfi, en dyggustu stuðningsmenn Íslands sungu lengi eftir leik.

"Hér var frábær stemning. Tólfan er ennþá að syngja. Ég held við séum á leiðinni niður í bæ núna að fagna með fólkinu sem hefur stutt okkur," sagði Gylfi.

Leikurinn sjálfur var ekki upp á marga fiska og glotti Gylfi þegar hann var spurður hvort þetta væri sætasta 0-0 jafntefli sem hann hefur gert.

"Ég held það. Þetta er bara besta jafntefli sem ég mun gera í lífinu. Þetta var bara spurning um að ná í þetta eina stig. Sigur hefði verið frábær en nú þurfum við að njóta augnabliksins. Ég get ekki lýst þessu," sagði Gylfi Þór Sigurðsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×