Erlent

Líkja stjórnendum Ashley Madison við eiturlyfjasala sem misnotar fíkla

Birgir Olgeirsson skrifar
Hakkararnir segja öryggi síðunnar Ashley Madison hafa verið hlægilegt.
Hakkararnir segja öryggi síðunnar Ashley Madison hafa verið hlægilegt. Vísir/Getty
Hakkarateymið TheImpactTeam líkir stjórnendum kanadíska fyrirtækisins AvidLifeMedia, sem rekur vefsíðuna AshleyMadison, við eiturlyfjasala og lygasjúka stjórnmálamenn.

Þetta segir teymið í viðtali við veftímaritið Motherboard en viðtalið fór fram í gegnum tölvupóstsamskipti.

Vefsíðan AshleyMadison hefur verið í loftinu síðan 2001 og er markhópur hennar fólk sem vill halda fram hjá maka sínum. Slagorð síðunnar er „Lífið er stutt, haltu fram hjá“ og hefur hún verið gagnrýnd í áraraðir.

TheImpactTeam stal gögnum um 37 milljóna notenda síðunnar en Fréttablaðið sagði frá því í vikunni að alls eru 128 manns sem skráðu sig á síðuna og sögðust vera á Íslandi.

Þriðjungur myndanna nektarmyndir

Hakkararnir
segja öryggi síðunnar hlægilegt en þeir stálu ekki aðeins upplýsingum um notendur hennar heldur einnig tölvupósti starfsmanna, samtöl sem notendur síðunnar áttu sín á milli og ljósmyndum.

„Þriðjungur þessara mynda voru typpa myndir en við ætlum ekki að setja þær á netið. Ekki heldur tölvupóst starfsmanna, mögulega stjórnenda fyrirtækisins,“ segir teymið.

Þegar teymið er spurt hvað því finnst um viðbrögð fyrirtækisins AvidLifeMedia og forstjóra þess Noel Biderman í kjölfar lekans segja þeir fyrirtækið græða milljarða á ári með svikum.

„Þeir hljóma eins og pólitíkusar, geta ekki hætt að ljúga. Þeir sögðust ekki geyma kreditkortaupplýsingar eða tölvupóst en gerðu það samt.“

Vildu stöðva misnotkunina

Þegar teymið er spurt hvers vegna það ákvað að ráðast gegn AshleyMadison segist það hafa fylgst með síðunni vaxa og dafna og fjölga notendum sínum afar hratt.

„Við gerðum þetta til að stöðva næstu 60 milljónir sem hefðu skráð sig á síðuna. AvidLifeMedia er eins og eiturlyfjasali sem misnotar fíkla.“

Teymið er spurt hvort það ætli að ráðast gegn öðrum síðum í náinni framtíð.

„Ekki aðeins síðum. Hvaða fyrirtæki sem er sem þénar milljarða á þjáningum annarra, leyndarmálum og lygum. Kannski spilltum pólitíkusum.“


Tengdar fréttir

Átta staðreyndir um Ashley Madison og lekann

Hér að neðan má lesa átta staðreyndir um Ashley Madison og lekann en í gögnunum má finna ítarlegar persónuupplýsingar milljóna manna, þar á meðal tuga Íslendinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×