Innlent

"Hann á rétt á að fara yfir sitt námsefni heima eins og önnur börn“

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Íslenska ríkið hefur hafnað kröfu fjölskyldu tíu ára heyrnarlauss drengs um að hann fái námsefni á móðurmáli sínu, táknmáli. Fjölskyldan ætlar að stefna ríkinu í annað sinn og segir málið fordæmisgefandi. 

Andri Fannar Ágústsson byrjar í næstu viku í sjötta bekk Holtaskóla í Reykjanesbæ. Hann fæddist alveg heyrnalaus en í upphafi síðasta árs kom í ljós að námsefni sem gert hafði verið ráð fyrir að hann myndi læra var ekki til á táknmáli. Fjölskylda hans fór því í mál við ríkið og Reykjanesbæ, en kröfunni var vísað frá í héraðsdómi í lok maí á þeim grundvelli að drengurinn hefði ekki lögvarða hagsmuni í málinu, og staðfesti Hæsturétur niðurstöðuna í síðustu viku. Fjölskyldan ætlar því að höfða annað mál. 

„Fólk skilur ekki afhverju hann getur ekki bara lesið bækurnar eins og hinir. Það er bara ekki þannig. Hann er með táknmálið sem móðurmál og hann kann ekki íslensku. Hann er að rembast við að læra hana en táknmál er hans fyrsta mál og við teljum að hann eigi rétt á sínu námsefni á sínu móðurmáli,“ segir Björg Hafsteinsdóttir móðir Andra Fannars.

Lögmaður fjölskyldunnar fékk þau svör frá Námsgagnastofnun, þegar hann óskaði eftir að stofnunin myndi útvega Andra námsefni við hæfi, að stofnunin tæki mið af fjárheimildum fjárlaga og til þess væri einfaldlega ekki svigrúm. Björg segir skilningsleysi einkenna málið.

„Kennarinn les aldrei upp allt námsefnið í skólanum. Hann hefur rétt á því eins og aðrir að lesið námsefnið sitt heima. Farið yfir það eins og önnur börn,“ segir hún.

Þá segir Björg mismununina í kerfinu sára. Níu manns starfa til að mynda við að þýða námsefni fyrir blind börn.

„Það er ekkert stöðugildi og ekki ein króna í fjárlögum sem fer í þessa þjónustu fyrir heyrnalausa,“ segir hún.

Málið verður fordæmisgefandi. 

„Við erum ekki að berjast bara fyrir Andra. Við erum að berjast fyrir önnur heyrnalaus börn. Því miður hefur þetta ekki verið gert. Við erum svolítið að ryðja brautina og ætlum að vonast til að það hjálpi fleiri börnum í framtíðinni sem eru heyrnalaus,“ segir Björg Hafsteinsdóttir. 


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.