Fótbolti

Bandaríkin vill að Sviss framselji FIFA-mennina

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jeffrey Webb, fyrrverandi forseti CONCACAF, er á meðal þeirra sem voru handteknir.
Jeffrey Webb, fyrrverandi forseti CONCACAF, er á meðal þeirra sem voru handteknir. vísir/getty
Bandarísk dómsmálayfirvöld vilja að svissnesk yfirvöld framselji FIFA-mennina sjö sem handteknir voru í Zürich í maí.

Frá þessu greindi svissneska dómsmálaráðuneytið í morgun, en sjö yfirmenn FIFA, þar á meðan varaforsetinn Jeffrey Webb, voru handteknir í Zürich vegna gruns um spillingu og mútuþægni.

Stór hluti þeirra hundruða milljóna sem mennirnir hafa þegið í mútur yfir langan tíma fóru í gegnum bandarískt bankakerfi og ætla Bandaríkin því að láta mennina svara til saka þar.

Handtökurnar og ákærurnar hafa dregið mikinn dilk á eftir sér, en forseti FIFA, Sepp Blatter, sagði af sér skömmu eftir að vera endurkjörinn í fjórða sinn.

Bandaríkin báðu formlega um framsal á sjömenningunum í gærkvöldi en þetta ferli verður langt og strangt þar sem mennirnir geta barist gegn framsalinu á tveimur dómstigum í Sviss.


Tengdar fréttir

Blatter: Ég fer til himnaríkis einn daginn

Sepp Blatter, forseti FIFA, hótar því að allir þeir sem bendla hann við FIFA-spillingarmálið eigi skilið að fara í fangelsi og hann er sannfærður að himnaríki bíði hans einhvern daginn. Þetta segir hinn 79 ára gamli Svisslendingur í viðtali við þýska blaðið Bunte.

Bankar í Sviss hjálpa við rannsókn á FIFA

Svissneskir saksóknarar rannsaka 53 tilfelli meints peningaþvættis. Ríkissaksóknari Sviss segir rannsóknina flókna og efast ekki um að hún verði langdregin. Sepp Blatter, forseti FIFA, gæti þurft að mæta í yfirheyrslu hjá Svisslendingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×