Innlent

Þakklátastur fyrir að hafa lent í fangelsi

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Kyra Maya Phillips vill læra af glæpamönnum.
Kyra Maya Phillips vill læra af glæpamönnum.
Duane Jackson var handtekinn í júní árið 1999 fyrir að hafa gert tilraun til þess að flytja inn 6500 töflur af alsælu. Hann þakkar fyrir það að hafa lent í fangelsi af ástæðum sem Kyra Maya Phillips, rithöfundur og frumkvöðull, greindi frá á TEDxReykjavík viðburði í júní. Söguna má sjá í heild sinni í fyrirlestri Phillips hér að neðan. Fréttin hér að neðan greinir aðeins frá inntakinu í fyrirlestri Phillips þar sem erfitt er að fjalla um hann ítarlega án þess að skemma fyrir áhorfendum.

Phillips skrifaði bókina The Misfit Economy eða Hagkerfi utangarðsfólksins en bókin fjallar um það hvernig hægt er að læra af utangarðsfólki og á þar við orðið í sinni víðustu merkingu; af glæpamönnum, tölvuþrjótum, svikahröppum, sjóræningjum, fyrrverandi föngum og svo mætti áfram telja.

Rithöfundurinn fer í saumana á því hvað það merkir að fylgjast með. „Ekki bara að fylgjast með fréttum af athygli eða hlusta á vin þinn af athygli,“ segir hún heldur á hún við á mun dýpri hátt. „Stíga tilbaka og virkilega skoða eigin gjörðir. Venjur okkar eru svo vel forritaðar í móðurtölvuna okkar að við efumst sjaldan um þær.“

Glæpamenn efast og spyrja spurninga

Hún nefnir hversu auðvelt það er að fara í gegnum lífið í vanafestu og velta því sjaldan fyrir sér hvað aðrir eru að hugsa og hvernig þeir sjá og upplifa hlutina.

Glæpamenn, af öllum stærðum og gerðum, virðast eftir viðtöl, sem Phillips tók við gerð bókarinnar, sífellt spyrja sig spurninga. Þeir storka kerfinu sem samfélagið viðurkennir, stundum hugsunarlaust, og spyrja sig spurninga um eigin hegðun.

Saga Duane Jackson er áhugaverð fyrir margar sakir en kannski helst fyrir umbreytinguna sem varð á lífi hans eftir að hann ákvað að stíga tilbaka. Horfa á eigin gjörðir og þann stað sem hann var kominn á í lífinu. Hann spurði sig spurningarinnar: „Staðurinn sem ég er á lífinu í dag – er ég kannski ástæðan fyrir því að ég er staddur hér?“

Þessa spurningu ættu allir að spyrja sig að mati Phillips, það þarf ekki að lenda í fangelsi eða vera í örvæntingarfullum og vonlausum aðstæðum. Fyrirlestur Phillips er í heild sinni hér að neðan eins og áður var nefnt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×