Innlent

Borgarstjóri og ráðherra rífast um Hvassahraun: „Þið ætlið að hrekja völlinn í burtu“

Birgir Olgeirsson skrifar
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hafa tekist á um flugsamgöngur á Facebook í dag.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hafa tekist á um flugsamgöngur á Facebook í dag. Vísir
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hafa tekist á um málefni Reykjavíkurflugvallar og niðurstöður Rögnunefndarinnar á Facebook-síðu ráðherrans.

Líkt og fram hefur komið telur Rögnunefndin vænlegast að byggja nýjan flugvöll í Hvassahrauni af þeim möguleikum sem voru skoðaðir en Gunnar Bragi sagði í kjölfari á Facebook-síðu sinni að það kæmi ekki til greina að ríkið myndi bera kostnað við framkvæmdir á nýjum flugvöllinn sem er talinn nema 22 milljörðum króna.

Segir Dag ætla að láta borgarbúa borga

Gunnar hélt því fram að með þessu væri augljóst að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri ætli að láta borgarbúa bera þann kostnað sem hlýst af framkvæmdum við nýjan flugvöll í Hvassahrauni.

Dagur var snöggur til að svara þessu skoti utanríkisráðherrans og spurði hvort Seyðisfirðingar eigi að borga fyrir Fjarðaheiðargöng en Degi var í kjölfarið bent á að ef þau göng væru til staðar og Seyðisfirðingar vildu fá ný göng þá ættu þeir að bera kostnaðinn.

Gunnar Bragi svaraði Degi á þá leið að borgarstjórnarmeirihlutinn væri að hrekja flugvöllinn úr Vatnsmýrinni og hljóti því að taka ábyrgð á því. Bætti hann því við að samlíkingin við Fjarðarheiðargöng væri órökrétt.

Vildi málefnalegar umræður

Dagur segir í kjölfarið við Gunnar Braga að eflaust eigi eftir að ræða margt varðandi þetta málefni á næstunni. „Skulum setjast að því borði og halda þessu á málefnalegum og uppbyggilegum nótum, er það ekki?“

Gunnar Bragi spyr á á móti hvort Dagur sé með þessu að segjast vera opinn fyrir því að ræða að flugvöllurinn verði á fram í Vatnsmýrinni.

„Skýrslan og gögnin sem þar birtast leggur nýjan grunn að umræðunni og ég hef sagst vera tilbúinn til að tryggja rekstraröryggi í Vatnsmýri á meðan nauðsynlegar kannanir og framkvæmdir við nýjan völl standa yfir. Það stendur,“ svarar Dagur.

Uppbyggingin á herðar borgarbúa

Gunnar spyr á móti hvort að málefnalega umræðan sem Dagur bauð upp á snúist um hver muni borga flutninginn á flugvellinum í Hvassahraun. „Þess þarf ekki, þið ætlið að hrekja völlinn í burtu og setjið það þá á herðar borgarbúa að borga uppbyggingu á nýjum stað.“

Dagur segir Gunnar Braga misskilja málið því það hafi verið ráðherrann sem lagði málið upp þannig að það snúist um hver eigi að bera kostnaðinn. „Ég sagði að það þyrfti að ræða margt í þessu - og án þess að vera með einhvern tón - á báða bóga.“

22 milljarðar króna í nýjan flugvöll. Kemur ekki til greina að ríkið beri þann kostnað, augljóst að Dagur ætlar borgarbúum að borga brúsann.

Posted by Gunnar Bragi Sveinsson on Friday, June 26, 2015

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×