Innlent

Hálf milljón vill stöðva för Winter Bay

Stefán Ó. Jónsson skrifar
1.700 tonn af langreyðarkjöti eru um borð í Winter Bay. Hér er það við bryggju í Hafnarfirði í maí síðastliðnum.
1.700 tonn af langreyðarkjöti eru um borð í Winter Bay. Hér er það við bryggju í Hafnarfirði í maí síðastliðnum. Vísir/ernir
Rúmlega 473 þúsund manns hafa skrifað undir áskorun þar sem þess er krafist að karabíska eyríkið St. Kitts afturkalli fána sinn af flutningaskipinu Winter Bay sem flytur hvalkjöt til Japans  og koma í veg fyrir hvalveiðar Íslendinga sem hefjast innan skamms.

Samtökin Avaaz – World in Action standa að söfnuninni og hefur fjöldi undirskrifta tvöfaldast um helgina. Þá eykst fjöldi undirskrifta hratt. Rúmlega 500 manns skrá sig á hverri mínútu.  Ekki er hægt að skrifa undir án þess að skrá sig inn á síðuna og á síðunni er tekið fram að rúmlega 41 milljón manns séu skráðir notendur.  Þó er erfitt að sannreyna undirskriftirnar og hvergi er hægt að nálgast heildarlista þeirra sem hafa undirritað áskorunina.

Í undirskriftasöfnuninni er biðlað til Timothy Harris, forsætisráðherra karabísku eyjunnar St.Kitts and Nevis, um að afturkalla fána Winter Bay. Flutningaskipið sem flytur um 1800 tonn af hvalkjöti frá Íslandi er skráð þar í landi.

Skipið er nú við höfn í Tromsö í Noregi þar sem það bíður fregna af ástandi hafíss við Norðurskautið. Áhöfn Winter Bay hefur í hyggju að sigla Norðurslóðaleiðina svokölluðu en skipið, sem í lægsta ísklassa, getur ekki farið úr höfn fyrr en skilyrðin teljast viðunandi. Magn hafíss er alla jafna minnst í ágúst og september. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×