Enski boltinn

Schneiderlin að semja við United | De Gea gæti þurft að vera áfram

Tómas Þór Þórðarson skrifar
vísir/getty
Fram kemur í ensku blöðunum í morgun að Morgan Schneiderlin, miðjumaður Southampton í ensku úrvalsdeildinni, færist nær Manchester United.

United er að ganga frá 25 milljóna punda kaupum á leikmanninum sem spilað hefur með Dýrlingunum undanfarin fimm ár, en Frakkinn mun skrifa undir fjögurra ára samning við United.

Hann verður annar leikmaðurinn sem Louis van Gaal fær til sín í sumar, en áður en síðasta leiktíð kláraðist gekk Manchester United frá kaupum á hollenska vængmanninum Memphis Depay.

Bresku blöðin greina einnig frá því í morgun að David De Gea gæti neyðst til að klára samninginn sinn á Old Trafford og spila eina leiktíð til viðbótar.

United ætlar ekki að selja markvörðinn öfluga fyrir minna en 20 milljónir punda, en spænska stórliðið Real Madrid virðist ekki hafa áhuga á að borga svo mikið fyrir De Gea.

Spænski markvörðurinn á eitt ár eftir af samningi sínum við félagið og fer því frítt næsta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×