Íslenski boltinn

Tryggvi rekinn frá ÍBV | Braut af sér í starfi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tryggvi er hættur hjá ÍBV.
Tryggvi er hættur hjá ÍBV. vísir/stefán
Tryggvi Guðmundsson hefur verið rekinn sem aðstoðarþjálfari ÍBV. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu. Þar segir:

„Stjórn knattspyrnuráđs karla hjá ÍBV og Tryggvi Guðmundsson komust í morgun að samkomulagi um starfslok hans hjá félaginu. Ástæða starfsloka hans er tilkomin vegna brots í starfi og tekur gildi frá og með deginum í dag.“

Sjá einnig: Tryggvi mætti á æfingu undir áhrifum: „Ég gerði mistök“.

Í gær bárust fyrst fregnir af því að Tryggvi hefði verið rekinn frá ÍBV á vefsíðunni 433.is.

Tryggvi stýrði Eyjaliðinu ekki gegn Breiðabliki í gær vegna veikinda, að því er sagt var, en hann tók tímabundið við liðinu í síðustu viku eftir að Jóhannes Harðarson dró sig hlé sem þjálfari liðsins vegna persónulegra ástæðna.

Ingi Sigurðsson, fyrrverandi leikmaður ÍBV og bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, stjórnaði Eyjamönnum í fjarveru Jóhannesar og Tryggva í gær. ÍBV vann leikinn 2-0 en þetta var annar sigur liðsins í sumar.

Í samtali við Vísi í gær neitaði Óskar Örn Ólafsson, formaður knattspyrnudeildar ÍBV, að Tryggvi hefði verið rekinn og sagði fréttina ranga.

„Fréttin er bara röng. Hann tilkynnti veikindi í morgun og það er betra að hafa hann ekki veikan í kringum liðið,“ sagði Óskar Örn við Vísi. Svo reyndist ekki vera og Tryggvi, sem er markahæsti leikmaður í sögu efstu deildar á Íslandi, hefur því verið látinn fara frá ÍBV.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×