Fótbolti

Ferguson: Gill rétti maðurinn fyrir FIFA

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ferguson og Gill á góðri stund.
Ferguson og Gill á góðri stund. vísir/getty
Sir Alex Ferguson segir að David Gill, fyrrverandi stjórnarformaður Manchester United, sé rétti maðurinn til að enduruppbyggja FIFA, alþjóðaknattspyrnusambandið.

Gill er einn af varaforsetum FIFA en hann mætti ekki á fund framkvæmdastjórnar sambandsins í mótmælaskyni daginn eftir að Sepp Blatter var endurkjörinn forseti þess.

Svisslendingurinn tilkynnti í síðustu viku að hann ætlaði að segja af sér og Gill er einn þeirra sem þykir líklegur eftirmaður hans.

„David er einmitt maðurinn sem getur lagað það sem er að í alþjóðlegum fótbolta eftir þessar nýlegu ásakanir um spillingu og mútuþægni innan FIFA,“ sagði Ferguson um Gill en þeir áttu mjög gott samstarf hjá Manchester United.

„Hann er heiðarlegur, hreinskilinn, einstaklega mælskur og hefur mikla þekkingu á fótbolta. Þetta eru eiginleikar sem vantar sárlega hjá FIFA.

„Við áttum frábært samstarf í næstum 20 ár hjá Manchester United,“ sagði Ferguson sem hefur verið ófeiminn við að ausa Gill lofi í gegnum tíðina.

Samkvæmt heimildum BBC er líklegt að næsta forsetakjör FIFA verði haldið 16. desember á þessu ári.


Tengdar fréttir

Blatter hættir sem forseti FIFA

Sepp Blatter sagði af sér sem forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, skyndilega í dag. Hann gegnir starfinu þar til nýr forseti verður kjörinn.

Samsæri gegn pabba

Corinne Blatter, dóttir Sepp Blatter, segir að fólk bakvið tjöldin standi að baki samsæris gegn föður sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×