Innlent

Segjast saklausir af hópnauðgun í Breiðholti

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Einn piltanna fimm leiddur fyrir dómara í maí í fyrra.
Einn piltanna fimm leiddur fyrir dómara í maí í fyrra. Vísir/daníel
Piltarnir fimm sem gefið er að sök að hafa nauðgan sextán ára stúlku í maí á síðasta ári neituðu allir sök þegar mál þeirra var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Einn drengjanna býr erlendis og mætti ekki til þingfestingarinnar en verjandi hans tjáði réttinum afstöðu hans.

Þinghaldi í málinu er lokað en sú er alltaf raunin þegar um kynferðisbrot er að ræða. Búist er við því að aðalmeðferð hefjist í málinu þann 2. september næstkomandi.

Piltunum fimm er öllum gefið að sök að hafa haft margs konar kynferðismök við stúlkuna sem kærði þá til lögreglu. Hin meinta hópnauðgun átti sér stað aðfaranótt sunnudagsins 4. maí og kærði stúlkan piltana þremur dögum síðar.

Piltarnir eru á aldrinum 18-21 árs. Á stundum höfðu fleiri en einn af þeim kynferðismök við stúlkuna á sama tíma, með því að beita hana ofbeldi og annars konar ólögmætri nauðung, eins og segir í ákæru. 

Piltunum er gefið að sök að hafa beitt stúlkuna harðræði, lagst meðal annars yfir höfuð hennar og spennt ól um lærið á henni. 

Meðal gagna sem stúlkan lagði fram er myndband af atvikinu sem fór í dreifingu á netinu. Þá voru piltarnir allir nafngreindir á samfélagsmiðlum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×