Erlent

Helle Thorning gengur á fund drottningar

Heimir Már Pétursson skrifar
Forsætisráðherran biðst lausnar fyrir sig á ráðuneyti sitt. Stjórnarmyndun gæti orðið erfið vegna sterkrar stöðu Þjóðarflokksins.
Forsætisráðherran biðst lausnar fyrir sig á ráðuneyti sitt. Stjórnarmyndun gæti orðið erfið vegna sterkrar stöðu Þjóðarflokksins. vísir/afp
Helle Thorning Schmidt forsætisráðherra Danmerkur gengur á fund Margrétar Þórhildar Danadrottningar nú klukkan níu og biðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. Skömmu síðar mun Lars Lökke Rasmussen formaður Venstre ganga á fund drottningar og fá umboð til stjórnarmyndunar eftir kosningasigur hægri blokkarinnar í þingkosningunum í gær.

Sigur Rasmussen's er súrsætur þar sem flokkur hans tapaði tíu þingmönnum og er þriðji stærsti flokkurinn á þingi á eftir Jafnaðarmannaflokknum og Danska þjóðarflokknum. En sá síðarnefndi er sigurvegari kosninganna, bætti við sig miklu fylgi og fimmtán þingmönnum. Flokkurinn hefur lengst af þótt óstjórntækur vegna róttækra skoðana í innflytjendamálum og hefur hingað til ekki fengið ráðherra í ríkisstjórn.

Nú er hins vegar haft eftir Sören Gade sem var varnarmálaráðherra í fyrri ríkisstjórn Rasmussen að sigur Danska þjóðarflokksins sé slíkur að hann eigi heimtingu á ráðherrastólum í nýrri ríkisstjórn. Það sé aftur á móti undir Kristian Thulesen Dahl formanni Þjóðarflokksins komið að fara fram á ráðherraembætti í stjórninni.

Rasmussen sagði í ávarpi til flokksmanna sinna þegar sigur hæri blokkarinnar lá fyrir í gærkvöldi að Venstre hefði háð góða kosningabaráttu en ekki fengið góð úrslit. Niðurstaða kosninganna gæfi flokknum hins vegar tækifæri og eingöngu tækifæri til að vinna hug danskra kjósenda með verkum sínum.

Þá sagði Rasmussen ekki víst að myndun nýrrar ríkisstjórnar yrði auðveld og hefur þá eflaust hugsað til mikils sigurs Þjóðarflokksins, sem nú er stærsti flokkurinn innan hægri blokkarinnar og því mjög ráðandi um stefnumál væntanlegrar ríkisstjórnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×