Lífið

Lagahöfundur Unbroken: „María stóð sig eins og hetja“

Bjarki Ármannsson skrifar
„Þetta er búið að vera ómetanleg reynsla,“ segir Ásgeir Orri úr StopWaitGo.
„Þetta er búið að vera ómetanleg reynsla,“ segir Ásgeir Orri úr StopWaitGo. Vísir/EPA

„Þetta er bara svona, það þarf ekkert að samhryggjast mér,“ sagði Ásgeir Orri Ásgeirsson, einn meðlima StopWaitGo, þegar Vísir náði tali af honum stuttu eftir að ljóst varð að Ísland færi ekki áfram í úrslitakeppni Eurovision þetta árið. „Þetta er náttúrulega bara lagið okkar allra.“

María Ólafsdóttir flutti lagið Unbroken á seinna undanúrslitakvöldi keppninnar í Vínarborg í kvöld en var ekki meðal þeirra tíu atriða sem komust áfram. Ásgeir, einn lagahöfunda Unbroken, segir Íslendingahópinn samt sem áður stolta af frammistöðu Maríu.

Sjá einnig: Euro-Reynir: „Ekkert gaman að verða vitni að þessu“

„Það var ekkert sem hefði getað farið betur og María stóð sig eins og hetja,“ segir Ásgeir. „Það er bara í svona keppni, sem er svona ólíkindatól, þá þurfa bara allar breyturnar að vera manni í hag. Það var bara ekki þannig í kvöld.“

Íslendingar biðu flestir með öndina í hálsinum þegar tilkynnt var um það hvaða atriði kæmust áfram að flutningi loknum. Nafn Íslands hefur fjórum sinnum á síðustu sjö árum komið upp úr síðasta umslaginu en að þessu sinni hrepptu Ísraelsmenn, sem þykja líklegir til að ná langt í ár, síðasta sætið sem í boði var.

Sjá einnig: Keppendum San Marínó slátrað af íslenskum Twitter-notendum

„Maður byrjaði að hafa svona lúmska tilfinningu fyrir þessu, með fullri virðingu fyrir til dæmis Póllandi og Kýpur, þegar þau lönd voru lesin upp,“ segir Ásgeir. „Svo þegar maður sá að Ísrael var ekki komið áfram og síðasta umslagið var eftir, þá var maður svona eiginlega búinn að sjá þetta fyrir.“

Ásgeir segir að það eigi eftir að koma í ljós hvort hópurinn í kringum Maríu verði áfram úti í Vín á meðan keppni stendur. Hann segir Eurovision-ferlið allt hafa verið ómetanlega reynslu en að allt of snemmt sé að segja til um það hvort StopWaitGo-teymið reyni aftur við keppnina að ári.

„Þetta er bara búið að vera ógeðslega gaman og ómetanleg reynsla. Og það sem gerðist hérna í kvöld, það er bara vindur í seglin.“


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.