Enski boltinn

Carragher: Sterling á að halda sér saman og skipta um umboðsmann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sterling virðist vera á leið frá Liverpool.
Sterling virðist vera á leið frá Liverpool. vísir/getty
Jamie Carragher, fyrrverandi leikmaður Liverpool og núverandi sparkspekingur á Sky Sports, segir að Raheem Sterling eigi að halda kyrru fyrir í herbúðum Liverpool og finna sér nýjan umboðsmann.

Sjá einnig: Sterling vill fara frá Liverpool samkvæmt BBC

Carragher hefur verið duglegur að gagnrýna hegðun Sterling sem virðist róa öllum árum að því að komast frá Liverpool.

„Ég þekki Raheem Sterling. Ég spilaði með honum og hann er frábær strákur,“ sagði Carragher í Monday Night Football í gær en honum virtist öllum lokið eftir að hafa heyrt nýjustu fréttirnar um Sterling.

„Ég hitti hann um helgina og heilsaði honum. Hann er ekki einhver vitleysingur og ég vona að fólk sjái hann ekki í röngu ljósi.

„Ef það er eitthvað sem hann þarf að breyta, þá er það um umboðsmann. Sterling er bara krakki og það gerir mig reiðan að sjá 20 ára gamlan strák og umboðsmann hans fara í stríð við félagið,“ sagði Carragher ennfremur en hann segir að Sterling eigi að halda kyrru fyrir hjá Liverpool, það sé best fyrir feril hans.

„Hann þarf ekki að færa sig set. Það er best fyrir hans þróun og þroska sem leikmanns að vera áfram hjá Liverpool. Þar spilar hann í hverri viku,“ sagði Carragher ennfremur.

Carragher er ekki sáttur með Sterling þessa dagana.vísir/getty
Liverpool-goðsögnin, sem lagði skóna á hilluna 2013, segir að Sterling hafi ekki efni á að vera með einhverja stæla og verði sýna hvers hann er megnugur í stórum leikjunum.

„Strákurinn er frá London og vill greinilega fara aftur þangað. Þetta þarf ekki að snúast um peninga. Þetta gæti snúist um að vera í titilbaráttu og spila í Meistaradeildinni,“ sagði Carragher sem var greinilega misboðið.

„Liverpool átti möguleika á að vinna titil í ár, þegar liðið mætti Aston Villa í undanúrslitum bikarkeppninnar. Hvar gerði Sterling þá?

„Þú verður að vinna fyrir titlunum, þeir koma ekki upp í hendurnar á þér. Þú þarft að spila vel í stóru leikjunum.

„Hvað gerði Liverpool í Meistaradeildinni á þessu tímabili? Ekki neitt. Hvað gerði Raheem Sterling? Ekkert.

„Það er ekkert verra en það sem hann er að gera núna. Hann á að loka þverrifunni á sér og halda áfram að spila fótbolta,“ sagði Carragher að lokum.


Tengdar fréttir

Wenger: Ég vil ekki ljúga

Arsenal mætir Sunderland í ensku úrvalsdeildinni annað kvöld en það er frestaður leikur frá því fyrr í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×