Innlent

Karlar á þingi standa saman í átaki UN Women

Atli Ísleifsson skrifar
Þingmennirnir söfnuðust saman í Alþingisgarðinum fyrr í dag.
Þingmennirnir söfnuðust saman í Alþingisgarðinum fyrr í dag. Vísir/UN Women
Þingmenn allra flokka sýndu samstöðu í alþingisgarðinum fyrr í dag þegar þeir mættu í myndatöku fyrir átak UN Women, HeForShe – Ólíkir en sammála um kynjajafnrétti.

Þingmennirnir hétu því að því tilefni að skrá sig sem mánaðarlega styrktaraðila UN Women.

Í tilkynningu frá UN Women segir að það megi með sanni segja að þingmennirnir séu ólíkir en engu að síður eru þeir sammála um að jafnrétti ríki á meðal kynjanna á öllum sviðum.

„Kynjajafnrétti er mannréttindamál sem snertir okkur öll. Samkvæmt rannsókn á vegum UN Women verður jafnrétti náð árið 2095 ef við höldum áfram á sömu braut á sama hraða. Með stráka og karlmenn um borð er talið að jafnrétti muni nást helmingi fyrr. Ef allir leggjast á eitt, konur og karlar, er hægt að koma á fullkomnu jafnrétti.“

Landsnefnd UN Women á Íslandi styrkir hin ýmsu verkefni – „allt frá því að vinna með stjórnvöldum að bættri löggjöf, starfrækja saumastofur fyrir sýrlenskar konur í flóttamannabúðum í Jórdaníu og bæta götulýsingu í Nýju Delí þar sem 95% kvenna hafa upplifað kynferðislega áreitni á götum úti.

UN Women styður verkefni sem felast í því að stuðla að sterkari löggjöf og stefnumótun hvað varðar réttindi og líf kvenna, forvarnaverkefni eins og fræðslu fyrir unga drengi um kynjajafnrétti og bæta aðgengi kvenna að viðeigandi þjónustu, sé brotið á þeim.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×