Erlent

Sádi-Arabar tilkynna fimm daga vopnahlé í Jemen

Samúel Karl Ólason skrifar
Vopnaðir menn hliðhollir ríkisstjórninni standa vörð á götu í Aden.
Vopnaðir menn hliðhollir ríkisstjórninni standa vörð á götu í Aden. Vísir/EPA
Sádi-Arabía tilkynnti rétt í þessu fimm daga vopnahlé í Jemen af mannúðarástæðum svo hjálparstarf geti haldið áfram. Sádar hafa gert loftárásir gegn uppreisnarmönnum í Jemen en hafa ekki sent hermenn inn í landið. Þess í stað hafa þeir sent vopn og birgðir til vopnaðra sveita sem hliðhollar eru ríkisstjórninni.

Ríkisstjórn Jemen hefur sent öryggisráði Sameinuðu þjóðanna erindi þar sem beðið er um landhernað til að stöðva sókn uppreisnarmanna þar í landi. Mögulega gæti það leitt til inngrips Sáda þar í landi, en ríkisstjórnin er í útlegð í Sádi-Arabíu. Ástandið í Jemen er verulega slæmt og allt hjálparstarf mun mögulega stöðvast á næstu dögum vegna skorts á eldsneyti.

Uppreisnarmenn Húta berjast nú við vopnaða hópa hliðholla stjórnvöldum um borgina Aden. Þar hafa uppreisnarmennirnir sótt fram á undanförnum dögum.

Samkvæmt Guardian kemur fram í erindinu að ríkisstjórn Jemen biðli til alþjóðasamfélagsins um að senda hermenn til landsins og þá sérstaklega til Aden og borgarinnar Taiz. Þá er einnig farið fram á rannsókn á ofbeldi Húta og bandamanna þeirra í Jemen.

Íbúar Aden hafa sakað Húta um að gera stórskotaárásir gegn almennum borgurum og segja þá hrella fólk í borginni.


Tengdar fréttir

Tvískinnungur Washington

Hundruð almennra borgara hafa látið lífið í drónaárásum Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×