Enski boltinn

Van Gaal varð að kaupa Memphis strax annars hefði PSG stolið honum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Memphis Depay er aðdáandi Van Gaal.
Memphis Depay er aðdáandi Van Gaal. vísir/getty
Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, neyddist til að ganga frá kaupum á hollenska vængmanninum Memphis Depay núna þó hann hefði frekar kosið að gera það í sumar.

PSV er búið að samþykkja 25-30 milljóna punda tilboð í leikmanninn og Memphis, sem skoraði 21 mark í 28 leikjum fyrir meistaralið PSV á tímabilinu, er búinn að semja um kaup og kjör.

„Ég var neyddur til að kaupa hann. Ég varð að ganga frá þessu annars hefði hann farið til PSG,“ sagði Van Gaal á blaðamannafundi í dag.

Hollenski stjórinn vildi ekki kaupa nýjan leikmann á meðan tímabilinu stendur en vegna áhuga PSG þurfti hann að grípa í taumana.

„Þegar þú kaupir leikmanna truflar það einbeitingu núverandi leikmannahóps,“ sagði Louis van Gaal.

Manchester United er aftur komið í harða baráttu um síðasta Meistaradeildarsætið í ensku úrvalsdeildinni, en liðið er aðeins fjórum stigum á undan Liverpool þegar þrjár umferðir eru eftir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×