Enski boltinn

PSV staðfestir kaup Manchester United á Memphis Depay

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Memphis Depay spilar með United á næstu leiktíð.
Memphis Depay spilar með United á næstu leiktíð. vísir/getty
Manchester United hefur tryggt sér þjónustu hollenska kantmannsins Memphis Depay, en PSV er búið að samþykkja kauptilboð enska félagsins í leikmanninn.

Þetta staðfestir Marcen Brands, yfirmaður knattspyrnumála hjá PSV Eindhoven, á vef félagsins í dag.

Depay er einnig búinn að semja sjálfur um kaup og kjör við Manchester United og á bara eftir að fá atvinnuleyfi og standast læknisskoðun áður en gengið verður frá félagaskiptunum.

Talið er að Manchester United borgi 30 milljónir punda fyrir þennan 21 árs gamla leikmann sem er búinn að skora 21 mark í 28 leikjum í hollensku úrvalsdeildinni í ár.

Hann hefur verið lykilmaður í liði PSV undanfarin ár þrátt fyrir ungan aldur, en Depay fagnaði Hollandsmeistaratitlinum með PSV á dögunum.

Hann á að baki 15 landsleiki fyrir hollenska landsliðið, en Depay var í hópnum hjá Louis Van Gaal á HM í Brasilíu síðasta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×