Enski boltinn

Depay sá fjórði sem United kaupir frá PSV

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Depay og van Gaal endurnýja kynnin hjá Manchester United.
Depay og van Gaal endurnýja kynnin hjá Manchester United. vísir/getty
Eins og fram kom í morgun hefur Manchester United fest kaup á hollenska kantmanninum Memphis Depay frá PSV Eindhoven.



Talið er að United borgi 30 milljónir evra fyrir Depay sem þykir einn besti ungi leikmaður í Evrópuboltanum í dag.

Depay, sem er 21 árs, hefur skorað 21 mark í 28 leikjum í hollensku úrvalsdeildinni í vetur en PSV er þegar orðið hollenskur meistari.

Louis van Gaal þekkir vel til Depay en hann lék undir stjórn van Gaals þegar hann var með hollenska landsliðið.

Depay verður tíundi Hollendingurinn sem spilar fyrir United en hann fylgir þar með í fótspor manna á borð Arnold Mühren, Edwin van der Sar, Jaap Stam og Ruud van Nistelrooy. Tveir hollenskir leikmenn eru í herbúðum rauðu djöflanna í dag; Robin van Persie og Daley Blind.

Depay er jafnframt fjórði leikmaðurinn sem United kaupir frá PSV, á eftir Stam, van Nistelrooy og Ji-sung Park.

Stuðningsmenn United vonast eflaust til þess að Depay fylgi í fótspor þessara leikmanna sem allir reyndust félaginu vel.

Stam var lykilmaður í liði United sem vann þrennuna 1999, van Nistelrooy skoraði 150 mörk í 219 leikjum fyrir liðið og Park var mikilvægur rulluspilari á árunum 2005-2012.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×