Erlent

Hver er þessi næsti forsætisráðherra Finna?

Atli Ísleifsson skrifar
Juha Sipilä er giftur Minna-Maaria Sipilä og á með henni fjögur börn.
Juha Sipilä er giftur Minna-Maaria Sipilä og á með henni fjögur börn. Vísir/AFP
Allt bendir til að Juha Sipilä komi til með að taka við embætti forsætisráðherra Finnlands af Alexander Stubb á næstu vikum. Miðflokkur Sipilä vann öruggan sigur í þingkosningunum um helgina og bíður Sipilä nú það verkefni að mynda starfhæfa ríkisstjórn.

Hinn 53 ára Sipilä þykir um margt óvenjulegur þátttakandi í finnskum stjórnmálum. Hann hafði litla reynslu af stjórnmálum þegar hann var kjörinn formaður Miðflokksins fyrir þremur árum síðan. Í júní 2012 var hann nýkjörinn á þing og fáir Finnar þekktu nokkuðtil mannsins, nema flokksmenn Miðflokksins.

Í frétt Svenska dagbladet segir að Juha Sipilä hafi fæðst árið 1961 í smábænum Vetili í vesturhluta Finnlands, er menntaður verkfræðingur og auðgaðist mikið í upplýsingatæknigeiranum. 35 ára gamall seldi hann fyrirtæki sitt fyrir jafnvirði rúmlega þriggja milljarða króna.

Sipilä er talinn höfða meira til fólksins en fráfarandi forsætisráðherrann Stubb sem af mörgum er talinn hrokafullur í fasi.

Leiðtogastíl Sipilä er lýst sem pragmatískum og árangursmiðuðum, en Susanna Ginman, leiðarahöfundur Hufvudstadsbladet, segir Finna þó enn lítið vita um hvers lags forsætisráðherra Sipilä verður.

Innan Miðflokksins hefur hann breytt starfsháttum og svipa þeir nú til þeirra aðferða sem hann notaðist við innan síns fyrirtækis, með skýrri markmiðasetningu og starfsemi sérstakra starfshópa sem skila skýrslum til forystunnar.

Sipilä er giftur Minna-Maaria Sipilä og á með henni fjögur börn. Fimmta barn þeirra hjóna, yngsti sonurinn Tuomo sem fæddist 1993, lést í febrúar síðastliðinn eftir að hafa gengist undir aðgerð. Sipilä tók sér þá frí frá kosningabaráttunni eftir að sonur hans lést.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×