Innlent

Engum leigusamningi hefur verið þinglýst vegna íbúðar Illuga

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Íbúðin var seld eignarhaldsfélagi í eigu stjórnarformanns Orku Energy fyrir 53,5 milljónir á síðasta ári.
Íbúðin var seld eignarhaldsfélagi í eigu stjórnarformanns Orku Energy fyrir 53,5 milljónir á síðasta ári. Vísir
Engum leigusamningi hefur verið þinglýst vegna Ránargötu 6a, íbúðarinnar sem Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, segist leigja af eignarhaldsfélagi í eigu stjórnarformanns Orku Energy.

Ekki er því að hægt að fá upplýsingar um hvenær leigusamningur á milli Illuga og félagsins var gerður né hversu mikið hann greiðir í leigu.

Samkvæmt upplýsingum af vef fasteignaskrár ríkisins um meðalleiguverð fasteigna á þessu svæði má ætla að leiguverð sé ekki undir 260 þúsund krónum á mánuði, sé greitt markaðsverð fyrir íbúðina, eins og Illugi hefur sagt í samtali við RÚV. Íbúðin er tæpir 138 fermetrar.

Íbúðin er í eigu OG Capital, félags sem Illugi átti sjálfur um nokkurra ára skeið, sem í dag er í eigu Hauks Harðarsonar, stjórnarformanns Orku Energy.

Íbúðin var afhent OG Capital 31. desember árið 2013 en kaupdagur eignarinnar er skráður tæpum sjö mánuðum síðar, 23. júlí á síðasta ári. Fasteignamat eignarinnar er 39,5 milljónir króna en brunabótamatið er tæpum 9 milljónum krónum lægra.

Samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir 2013, sem er nýjasti birti ársreikningur félagsins, var íbúðin keypt á 53,5 milljónir króna. Stundin hefur greint frá því að 55 milljónir króna hafi hvílt á eigninni þegar eignarhaldsfélag Hauks keypti hana.


Tengdar fréttir

Sagði ekkert óeðlilegt við samband sitt við Orku Energy

Illugi Gunnarsson seldi stjórnarformanni Orku Energy ehf. fyrirtæki og húsnæði sitt við Ránargötu sem hann nú leigir eftir að hann varð ráðherra. Illugi vann áður ráðgjafarstörf fyrir OE vegna umsvifa þess í Asíu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.