Innlent

Borgar 230 þúsund krónur í leigu á mánuði

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Illugi Gunnarsson segist hafa staðið illa fjárhagslega eftir hrunið.
Illugi Gunnarsson segist hafa staðið illa fjárhagslega eftir hrunið.
Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, segist borga Hauki Harðarsyni, stjórnarformanni Orku Energy, 230 þúsund krónur í leigu á mánuði fyrir íbúðina sem hann seldi eignarhaldsfélagi í eigu Hauks á síðasta ári. Þetta segir hann á Facebook-síðu sinni.

Seldi eignina á 53,5 milljónir

Á síðunni staðfestir Illugi það sem Vísir hefur áður greint frá að kaupverð eignarinnar hafi verið 53,5 milljónir króna. Samkvæmt upplýsingum frá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu hefur engum leigusamningi verið þinglýst vegna íbúðarinnar og ekki liggur fyrir þinglýstur kaupsamningur.

Einu þinglýstu gögnin vegna viðskiptanna með íbúðina sem fyrir liggja hjá sýslumanni er afsal eignarinnar til félagsins.

„Ég tel rétt að skýra frá þessu í ljósi þeirra spurninga sem hafa vaknað undanfarið um tengsl mín við Orka Energy en ég fullyrði að þessi tenging hafði engin áhrif á það hver aðkoma þessa fyrirtækis var að vinnuheimsókn minni til Kína,“ skrifar ráðherrann.

Illugi segist hafa unnið fyrir Orku Energy árið 2011 og að hann hafi fengið að mestu greitt fyrir þau verkefni árið 2012.

Í gær skýrði ég frá því að við hjónin gátum ekki haldið íbúð okkar eftir nokkur fjárhagsleg áföll sem á okkur dundu...

Posted by Illugi Gunnarsson on Monday, April 27, 2015
Segir hrunið hafa leikið sig grátt

Illugi segist hafa staðið illa í kjölfar hrunsins. „Hrunið lék okkur grátt eins og marga aðra af okkar kynslóð, gjaldþrot fyrirtækis sem ég og tengdafaðir minn heitinn áttum þýddi að á okkur féllu milljóna ábyrgðir og tekjumissir sem ég varð fyrir þegar ég tók mér launalaust leyfi frá þingstörfum gerði sitt,“ skrifar ráðherrann.

„Við stóðum því frammi fyrir því að selja íbúð okkar eða eiga það á hættu að missa hana,“ segir hann og bætir við að hann hafi sjálfur leitað að kaupendum að íbúðinni í stað þess að auglýsa hana til sölu. „[O]g varð það úr að Haukur Harðarson, sem er einn eigenda Orka Energy og starfar erlendis, keypti íbúðina.“



Íbúðin sem málið snýst um stendur við Ránargötu í Reykjavík.Vísir/Ernir
Tók yfir 55 milljóna skuldir

Eigninni var afsalað til OG Capital árið 2014. Þegar skrifað var undir afsalið tók félagið yfir áhvílandi skuldir, sem námu 55 milljónum króna. Allar skuldirnar voru við MP Banka.

Þetta kemur fram í þinglýstu afsalinu sem Hörður, Illugi og eiginkona hans Brynhildur Einarsdóttir skrifuðu undir 23. júní á síðasta ári. Þar kemur fram að þau Illugi og Brynhildur afsali eigninni til OG Capital til fullrar eignar og umráða. Ekkert kaupverð er nefnt í afsalinu.

Í afsalinu kemur einnig fram að afhending eignarinnar hafi farið fram um sjö mánuðum fyrr, þann 31. desember árið 2013. Formaður Félags fasteignasala segir það ekki óeðlilegt.

Ekkert óeðlilegt


„Það er ekkert að fetta fingur út í það vegna þess að það er ekki skylda að þinglýsa kaupsamningi og kaupsamningur getur hafa átt sér stað löngu áður,“ segir Ingibjörg Þórðardóttir, formaður Félags fasteignasala, aðspurð út í það að sjö mánuði líða frá afhendingu þar til afsal er gert. 

„Það er bara oft að fólk ákveður að þinglýsa bara afsalinu. Sérstaklega þegar þetta er komið inn í félag, svo er félagið selt, þá skiptir það bara um eigendur og það þarf ekki þinglýsingu,“ segir hún og bætir við að margar ástæður geta legið að baki ákvörðun um að þinglýsa ekki kaupsamningi.

„Það getur allt mögulegt legið að baki og það er ekki skylda að þinglýsa. Ég get ekki sagt að það eigi að bera merki um það að þetta sé einhver gerningur sem ekki stenst," segir hún og tekur dæmi um að kaupendur fasteigna vilji ekki gefa upp kaupverðið opinberlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×