Lífið

Fortitude aftur til Ísland: Hlutverk Björns Hlyns stækkar

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Af settinu á Reyðarfirði
Af settinu á Reyðarfirði mynd/pegasus og vísir/stefán
„Það verður aftur tekið upp hér á Íslandi,“ segir Snorri Þórisson, stjórnarformaður Pegasus kvikmyndagerðar. Fyrirtækið kom mikið að gerð Fortitude þáttanna hér á landi en þættirnir voru að hluta til teknir upp á Reyðarfirði.

„Við höfum leigt húsnæði þarna þar sem við höfum geymt bíla og alls kyns dót leikmuni sem við höfum þurft að nota. Við gerum ráð fyrir því að kíkja þangað inn von bráðar og smyrja bílana og gera og græja,“ segir Snorri.

Björn Hlynur Haraldsson leikur lögreglumanninn Eric Odegard í þáttunum og hefur samningur hans verið endurnýjaður. Það er óhætt að segja að Björn hafi nóg á sinni könnu en í kvöld frumsýnir hann kvikmynd sína Blóðberg.

Skemmtilegt andrúmsloft myndaðist fyrir austan

„Ég heyrði af þessu fyrir fáeinum vikum en mátti ekki segja frá þessu strax,“ segir Björn Hlynur. „Þetta verður mjög gaman.“

Allar útisenur í þáttunum eru teknar upp á Reyðarfirði meðan innisenur eru græjaðar innanhúss í myndveri í London. Björn mun því þurfa að ferðast eilítið á milli.

„Þetta eru alveg sex mánuðir sem fara í þetta og þeir nánast eiga mann á meðan. Stemningin í kringum þetta er líka svo skemmtileg, sérstaklega hérna á Íslandi. Allir gistu saman og hér skapaðist svo sérstakt andrúmsloft. Allir nutu kyrrðarinnar enda vanir stórum borgum,“ segir hann og bætir við að úti hafi allt verið örlítið öðruvísi enda mótleikarar hans haft kost á því að fara til síns heima.

Líkt og áður segir leikur Björn lögreglumann í þáttunum og hefur hann fengið að vita að hann mun spila stærri rullu í nýju þáttaröðinni. „Ég hef ekki fengið að vita hvernig en ég veit að á einhvern hátt mun ég hafa meiri áhrif. Þetta verður frábært,“ segir Björn Hlynur.


Tengdar fréttir

Þurftu að flytja inn snjó til Íslands

Framleiðendur þáttanna Fortitude voru stærstu innflytjendur gervisnjós árið 2014 en þættirnir voru að stórum hluta teknir upp hér á landi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×