Erlent

Mikið um dýrðir í Danaveldi í dag

Heimir Már Pétursson skrifar
Margrét Þórhildur veifaði til þegna sinna sem sungu fyrir hana í Fredensborgarhöll í morgun.
Margrét Þórhildur veifaði til þegna sinna sem sungu fyrir hana í Fredensborgarhöll í morgun. vísir/afp
Margrét II drottning af Danmörku er 75 ára í dag og verður mikið um hátíðarhöld hjá Dönum í tengslum við afmælið. Hátíðarkvöldverður var í konungshöllinni í gærkvöldi þar sem íslensku forsetahjónin voru meðal konung- og eðalborinna.

Danska drottningin heitir fullu nafni Margrethe Alexandrine Þórhildur Ingrid. En það var Ingrid móðir hennar, sem var af sænskum aðalsættum, sem vildi endilega að stúlkan héti einnig íslensku nafni. En þegar Margrét Þórhildur fæddist þennan dag árið 1940 hafði Danmörk verið hersetin af Þjóðverjum í viku.

Margrét varð drottning eftir að faðir hennar, Friðrik IX lést hin 14. janúar 1972, en þá var prinsessan rétt að verða 32 ára. Hún tók upp drottningarnafnið Margrét II sem var engin tilviljun, því síðasta konan á undan henni til að verða drottning var Margrét I, sem var drottning Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar frá 1387 til 1412.

Þegar Margrét Þórhildur fæddist gerðu dönsk lög hins vegar ekki ráð fyrir að konur gætu erft krúnuna. Því var aftur á móti breytt þegar hún var þrettán ára, árið 1953,  og ljóst var að foreldrar hennar myndu ekki eignast son. Þótt faðir hennar hafi verið krónprins Íslands um tíma var hún þó aldrei krónprinsessan af Íslandi.

Boðið var til mikillar veislu í Amalienborg, aðsetri drottningarinnar í Kaupmannahöfn, í gærkvöldi í tilefni afmælis drottningar. En eiginmaður hennar Hinrik prins var hins vegar fjarri góðu gamni vegna skæðrar flensu.

Við háborðið með drottningu sátu konungar Noregs og Svíþjóðar ásamt börnum drottningar, mökum þeirra, systrum drottningarinnar og mökum þeirra og öðrum nákomnum og eðalbornum, ásamt ókonungbornum forsetum Íslands og Finnlands og mökum þeirra.

Friðrik krónprins flutti ræðu móður sinni til heiðurs og það gerði Helle Thorning-Schmidt forsætisráðherra einnig. Drottningin þakkaði svo fyrir sig með ræðu.

Mikil afmælisdagskrá er í Danmörku í dag og sendir rás eitt danska sjónvarpsins, DR 1, beint út frá hátíðarhöldunum í allan dag.

Fylgjast má með hátíðarhöldunum á vef danska ríkisútvarpsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×