Fótbolti

Platini endurkjörinn forseti

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Michael Platini verður áfram forseti UEFA.
Michael Platini verður áfram forseti UEFA. Vísir/Getty
Michel Platini var endurkjörinn forseti Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, á ársþingi sambandsins sem fer nú fram í Vínarborg í Austurríki.

Platini var einn í framboði og kosningin var því einungis formsatriði. Platini er 59 ára gamall og hefur verið forseti UEFA undanfarin átta ár eftir að hann hafði betur gegn Lennart Johansson, þáverandi forseta, í janúar 2007.

Stirt hefur verið á milli UEFA og Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, undanfarin ár, ekki síst eftir ítrekaðar ásakanir um spillingu sem síðefnda sambandið hefur fengið á sig.

Sepp Blatter, forseti FIFA, ávarpaði þingið í morgun og ítrekaði mikilvægi þess að FIFA og UEFA ynnu náið saman. Platini þakkaði fyrir sig með þessum orðum:

„Ég verð þó að segja að við elskum FIFA innilega. Það gerir allt knattspyrnusamfélag Evrópu. En það er einmitt vegna þess að við elskum og berum virðingu fyrir FIFA að við viljum að það sé fullkomið. Við krefjumst mikils af því fólki og stofnunum sem okkur þykir vænt um.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×