Fótbolti

Heimir: Auðvitað eiga menn að vænta þess að við vinnum þennan leik

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta er mætt til Astana þar sem það æfði í dag fyrir leik liðsins í undankeppni EM 2016 gegn Kasakstan á laugardaginn.

Heimir Hallgrímsson, annar landsliðsþjálfara Íslands, fagnar því að vera mættur svona snemma til að venjast aðstæðum og tímamismuninum.

„„Það var tilgangurinn með þessu að geta aðlagast aðstæðum og tímamun og gera okkur klára fyrir leikinn gegn Kasakstan,“ segir Heimir í viðtali við KSÍ.

„Við vitum að þetta verður erfiður leikur og við viljum gera allt sem við getum til að vera undirbúnir.“

Hvaða áhrif hafa önnur úrslit í riðlinum fyrir Ísland í þessari leikviku? „Þessi leikur er gríðarlega mikilvægur fyrir okkur. Ef við vinnum hann þá skipta önnur úrslit okkur engu máli. Öll önnur úrslit verða þá góð úrslit fyrir okkur,“ segir Heimir.

Landsliðsþjálfarinn segir lið Kasakstan vera í framför. „Þetta er nokkuð skemmtilegt lið. Þeir eru með líkamlega sterka leikmenn sérstaklega varnarlega. Þar eru þeir líka skipulagðir. Svo eru þeir með flinka og fljóta stráka fram á við. Þó þeir séu í neðsta sæti í riðlinum eru gæði þeirra ansi mikil. Þetta er klárlega lið í framför,“ segir Heimir.

Hann segir ekkert annað en sigur koma til greina í Astana þó það verði erfitt.  „Við erum komnir hingað til að vinna þennan leik. Auðvitað eiga menn að vænta þess að við vinnum hann. Það er þó enginn að segja þetta verði auðveldur leikur. Hann verður það aldrei en við ætlum að undirbúa okkur sem best til að geta unnið þennan leik,“ segir Heimir Hallgrímsson.

Allt viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×