Innlent

Farþegar Easy Jet sitja fastir á Egilsstöðum

Bjarki Ármannsson skrifar
Farþegar Easy Jet frá Basel sitja nú fastir á Egilsstöðum.
Farþegar Easy Jet frá Basel sitja nú fastir á Egilsstöðum. Vísir
Tvær flugvélar Easy Jet lentu á flugvellinum á Egilsstöðum nú síðdegis en fyrirhugað var að lenda á Keflavíkurvelli. Vélarnar voru á leiðinni frá Basel í Sviss og frá Edinborg í Skotlandi en fóru ekki til Keflavíkur vegna óveðursins sem nú gengur yfir landið. Farþegar vélanna eru allir enn um borð og talið er að þeir verði það til alla vega klukkan níu í kvöld.

Uppfært 18.00: Samkvæmt nýjustu upplýsingum eru aðstæður nú skárri í Keflavík og vélarnar tvær að búast til ferðar. Farþegar hafa verið beðnir um að gera sig klára fyrir brottför eins fljótt og auðið er.

Farþegi vélarinnar frá Basel segir í samtali við Vísi að farþegum hafi upphaflega verið boðið að fara frá borði, til að reyna að koma sér á áfangastað. Nú sé hinsvegar búið að tilkynna þeim að allir vegir frá Egilsstöðum séu lokaðir og enginn megi fara frá borði.

„Tollurinn bannar það,“ segir farþeginn. „Það er ung móðir hérna með tveggja mánaða barn sem ætlaði að fara frá borði og bókaði flug til Reykjavíkur á morgun. En tollurinn leyfir það ekki.“

Vegna óveðursins hefur Keflavíkurflugvöllur ekki getað afgreitt vélar við flugstöðina undanfarnar klukkustundir. Að sögn viðmælanda Vísis er vélin frá Basel full af fólki. Búið er að bjóða fólki ókeypis drykki en ekki er víst hvaða ráðstafanir verða gerðar í sambandi við mat.


Tengdar fréttir

Samgöngur lamast: Reykjanesbrautin og Hellisheiðin lokaðar

Búið er að loka veginum um Reykjanesbraut, Hellisheiði, Sandskeið, Þrengsli, Kjalarnes og Mosfellsheiði. Hálka og skafrenningur eru á Reykjanesbraut og á flestum öðrum leiðum á Reykjanesi og versnandi veður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×