Innlent

Samgöngur lamast: Reykjanesbrautin og Hellisheiðin lokaðar

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hviður allt að 40-55 m/s á Kjalarnesi, í Hvalfirði, undir Hafnarfjalli og norðan til á Snæfellsnesi.
Hviður allt að 40-55 m/s á Kjalarnesi, í Hvalfirði, undir Hafnarfjalli og norðan til á Snæfellsnesi. vísir/vilhelm
Búið er að loka veginum um Reykjanesbraut, Hellisheiði, Sandskeið, Þrengsli, Kjalarnes og Mosfellsheiði. Hálka og skafrenningur eru á Reykjanesbraut og á flestum öðrum leiðum á Reykjanesi og versnandi veður.

Óveður og hálka er á Grindavíkurvegi. Hálka og skafrenningur er á Hellisheiði og vaxandi vindur. Óveður er undir Hafnarfjallinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni. 



Hálka eða snjóþekja er á flestum öðrum leiðum á Suðurlandi en þó er þæfingsfærð efst á Landvegi. þungfært er á Krísuvíkurvegi.

Það er hálka eða snjóþekja á Vesturlandi og sumstaðar éljagangur eða skafrenningur. Þæfingsfærð með skafrenningi er í Staðarsveit. Ófært er á Fróðárheiði. Þæfingsfærð og skafrenningur er norðan megin í Hvalfirðinum. Á Vestfjörðum er víða hálka og snjóþekja og eitthvað um skafrenning.

Það er hálka, snjóþekja eða hálkublettir á Norðurlandi. Á Austurlandi eru hálkublettir. Hálka eða snjóþekja er með suðausturströndinni og sumstaðar élja.

Spáð er miklum hvelli í dag sem gengur nokkuð hratt yfir landið og á láglendi sunnan- og vestanlands nær að hlána. Suðvestanlands er útlit fyrir allt að 25-28 m/s í eftirmiðdaginn.

Vegagerðin vekur sérstaka athygli á erfiðum akstursskilyrðum á Reykjanesbraut á milli kl. 13 og 17. Hviður allt að 40-55 m/s á Kjalarnesi, í Hvalfirði, undir Hafnarfjalli og norðan til á Snæfellsnesi.

Eins vestan til undir Eyjafjöllum. Snjóbylur verður á flestum fjallvegum og eins a.m.k. fyrst í stað um tíma á láglendi. Snýst í S- og SV-átt upp úr kl. 18, stormur framan af og áfram skafrenningskóf s.s. á Hellisheiði fram eftir kvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×