Innlent

„Vill hann láta afhausa sig?“

Samúel Karl Ólason skrifar
„Fyrsta, vill hann láta afhausa sig?,“ spurði fyrsti maðurinn sem hringdi inn í liðinn „Einn á móti öllum“ í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Spurningu sinni beindi hann til Helga Hrafns Gunnarssonar, þingmanns Pírata.

Spurður nánar út í hvað hann átti við sagði maðurinn: „Nú, Pírat, nei, múslímarnir gera það.“ Að þessu sinni var tekin umræða um innflytjendamál, múslíma, mosku og fleira.

Annar maður sem hringdi inn sagðist hafa séð heimildarmynd á BBC sem fjallaði um lítið þorp nærri London. Þar hefði moska verið byggð og nú búi þar nánast bara múslímar. „Ef að þetta fer af stað, ætti það eitthvað síður að gerast hér?“

Helgi Hrafn sagði að honum þætti ekki skrítið að hópar mynduðust í svo stórri borg sem London er.

„Ég spyr þó á móti. Hvers vegna sjáum við þetta ekki í Kanada? Hvers vegna sjáum við þetta ekki í Bandaríkjunum?“

Helgi sagðist frekar óttast hægri öfgamennsku og benti á í því samhengi að stærsta hryðjuverk Norðurlandanna hefði verið framið af „hvítum, kristnum karlmanni. Norðmanni.“

„Ég heyrði hann Gústaf segja að þetta væri ósmekkleg athugasemd. Já já, við erum að tala um hryðjuverk. Við erum að tala um barnamorð. Þetta er ósmekklegt, þetta er ósmekkleg umræða og fólk verður bara að gjöra svo vel að þola það.“

Helgi benti á að á Evrópuþinginu væru þrír nýfasistar sem kalli sjálfa sig fasista. „Það eru núll íslamistar þar. Það eru 22 inni á hollenska þinginu frá Frelsisflokknum, en núll íslamistar.“

Hann segir að það að taka einhverjar einstakar hryllingssögur úr Stóra-Bretlandi segi ekkert til um heildarmyndina.

Hlusta má á Einn á móti öllum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×