Fótbolti

Öll ensku liðin úr leik | Sjáðu sigurmark Barcelona

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Börsungar fagna marki sínu í fyrri hálfleik.
Börsungar fagna marki sínu í fyrri hálfleik. Vísir/Getty
Barcelona tókst ætlunarverk sitt og sló Englandsmeistara Manchester City úr leik með 1-0 sigri á heimavelli sínum í kvöld og 3-1 samanlagt.

Ivan Rakitic skoraði eina mark leiksins á 31. mínútu er hann vippaði boltanum yfir Joe Hart í marki City eftir frábæra sendingu Lionel Messi.

Barcelona fór mikinn í fyrri hálfleik og voru City-menn stálheppnir að fara til búningsklefa sinna aðeins 1-0 undir. Heimamenn skutu þrívegis í markrammann í leiknum, þar af tvisvar í fyrri hálfleik.

Manchester City fékk þó tækifæri til að koma sér aftur inn í leikinn er Javier Mascherano braut á Sergio Agüero um stundarfjórðungi fyrir leikslok. En Marc-Andre ter Stegen varði slaka spyrnu Agüero.

Joe Hart var frábær í marki City og bjargaði því sem bjargað varð. Hann varði margsinnis afar vel, til að mynda frá Luis Suarez undir lokin en Suarez náði að fylgja skotinu eftir og skjóta í slá.

Þar með er ljóst að öll ensku liðin eru úr leik í Meistaradeild Evrópu en þrjú spænsk lið eru komin áfram - Barcelona, Real Madrid og Atletico Madrid.

Ivan Rakitic skoraði mark Barcelona í fyrri hálfleik:



Fleiri fréttir

Sjá meira


×