Innlent

Árni Páll: Landsfundur á lokaorðið

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Sigríður Ingibjörg bauð sig í kvöld óvænt fram á móti Árna Páli.
Sigríður Ingibjörg bauð sig í kvöld óvænt fram á móti Árna Páli. Vísir/GVA/Vilhelm
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir landsfundarfulltrúa eiga lokaorðið um forystu flokksins aðspurður um viðbrögð við framboði Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur þingmanns sem boðið sig hefur fram gegn honum.



„Ég hef í minni formannstíð lagt mig fram um að tryggja að Samfylkingin hafi breiða ásýnd og rúmi ólík sjónarmið svo hún geti verið áfram burðarafl í stjórnmálunum,“ segir hann í samtali við fréttastofu.



Formannsframboð Sigríðar Ingibjargar kom óvænt fram í á sjöunda tímanum í dag en hún staðfesti við fréttastofu að hún væri að bjóða sig fram gegn sitjandi formanni. Landsfundur Samfylkingarinnar verður um helgina.

Í samtali við RÚV sagði Sigríður að það sé vaxandi þrýstingur í flokknum að fá nýjan formann. „Ég var hikandi við það en svo finn ég það núna að hik er sama og tapa,“ sagði hún. „Ég held ég hafi ágætis fylgi.“



Aðspurð segist hún vera að bregðast við slöku gengi flokksins í skoðanakönnunum en flokkurinn hefur tapað fylgi í formannstíð Árna Páls. „Ég vil bara skerpa áherslurnar okkar á kjara- og húsnæðismál og ég tel líka mikilvægt að leggja ríkari áherslu á lýðræðis og réttlætismál,“ sagði hún í kvöldfréttum RÚV.







Fleiri fréttir

Sjá meira


×