Þorpið að Laugarbakka í Miðfirði byggðist upp með hitaveitu frá fyrstu tíð, sama gilti um Reykjaskóla í Hrútafirði, Hvammstangi fékk heita vatnið árið 1972 og nú er röðin komin að sveitunum í kring. Lykillinn að hitaveituvæðingu sveitanna eru einmitt jarðhitinn á Laugarbakka og Reykjum. Á Laugarbakka fást 30 til 40 sekúndulítrar af 97 stiga heitu vatni en aðeins um helmingur er nýttur í dag.

Þetta verða raunar einhverjar mestu framkvæmdir í héraðinu um langt árabil, fyrir um 700 milljónir króna. Í sumar er áætlað að 43 bæir og fyrirtæki í sveitunum fái hitaveituna og næsta sumar bætist við 50 í Víðidal. Næstu árin þar á eftir er svo vonast til að tengja yfir 30 til viðbótar. Þá eru áform um að leggja ljósleiðara og þriggja fasa rafmagn með hitaveitunni.
Nýja reiðhöllin í Víðidal, sem fjallað var um í þættinum „Um land allt“ á Stöð 2 í vikunni, er meðal þeirra sem fá hitaveituna. Ísólfur Líndal Þórisson, hrossabóndi á Lækjamóti, segir að gert hafi verið ráð fyrir hitaveitunni.
„Þannig að það er bara að tengja. Svo fáum við ljósleiðarann. Þannig að þá erum við aldeilis orðin tengd veröldinni,“ segir Ísólfur.

„Gríðarleg hlunnindi. Að ég tali nú ekki um ef við fáum ljósleiðara með. Það er engin spurning að þetta verður breyting á lífsgæðum,“ segir Guðný Hrund.
Sóknarhug Húnvetninga má kynnast í nýlegum þætti Stöðvar 2 frá Hvammstanga.