Innlent

Táningar í dreifnámi lífga upp byggðirnar

Kristján Már Unnarsson skrifar
Áhugaleikfélög hafa lifnað á ný í þremur byggðum við Húnaflóa; á Hólmavík, Hvammstanga og Blönduósi. Þetta er sagt tengjast því að ungmenni þurfa ekki lengur að fara í burtu í framhaldsskóla og geta nú stundað fjarnám í heimabyggð.

Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra á sér 35 ára sögu á Sauðárkróki en fyrir þremur árum var byrjað að bjóða upp á svokallað dreifnám í nýjum útibúum skólans á Blönduósi, Hvammstanga og Hólmavík. Um 15 nemendur stunda námið í vetur á hverjum stað, alls 46 nemendur, að sögn Ingileifar Oddsdóttur skólameistara.

Starfsstöðin á Hvammstanga er í félagsheimilinu en umsjónarmaður dreifnámsins þar, Rakel Runólfsdóttir félagsráðgjafi, segir það hafa mjög mikla þýðingu fyrir samfélagið.


Á Hvammstanga fer dreifnámið fram í félagsheimilinu.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
„Þetta lífgar upp á bæinn. Þetta snýst auðvitað bara um aðgengi að námi. Þetta er réttindamál að þessir krakkar hafi aðgang að námi og foreldrar geti haft börnin sín heima fram að sjálfræðisaldri,” segir Rakel í viðtali í fréttum Stöðvar 2. 

Kennararnir eru staðsettir í skólanum á Sauðárkróki, í fréttunum sést Ásgeir H. Aðalsteinsson kenna stærðfræði í gegnum netsamband. En hver er árangurinn í samanburði við hefðbundna kennslu? 

„Ég held að það hafi nú ekkert verið mælt nákvæmlega hvort einkunnir á prófi komi betur eða verr út. En ég tek eftir einu; að þau mæta betur í dreifnáminu,” segir Ásgeir.


Nemendur á Hvammstanga í stærðfræðitíma hjá kennara á Sauðárkróki.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Ingileif skólameistari telur það ekki tilviljun að samhliða þessu hafi áhugaleikfélögin á Hvammstanga, Hólmavík og Blönduósi öll lifnað á ný. En ekki aðeins fylgir líf og fjör unga fólkinu, foreldrarnir upplifa dreifnámið sem bætt búsetuskilyrði. 

„Áður þurftu bara krakkarnir að fara í burtu. Þá þurfti fólk að gera það upp við sig hvort það vildi senda börnin sín burtu og halda úti tveimur heimilum jafnvel, þar sem ekki er heimavist, eða þá að fara með þeim,” segir Rakel. 

„Þannig að þessi viðbót er ofsalega mikilvæg fyrir byggðir eins og þessa
.”

46 ungmenni á aldrinum 16 til 18 ára geta búið heima hjá sér í vetur í byggðunum við Húnaflóa og stundað fjarnám í framhaldsskóla.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Fjallað var um mannlíf á Hvammstanga á Stöð 2 í þættinum „Um land allt".


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×