Erlent

Endurvekja herkvaðningu af ótta við Rússa

Samúel Karl Ólason skrifar
Hermönnum í Úkraínu hefur fækkað á undanförnum árum.
Hermönnum í Úkraínu hefur fækkað á undanförnum árum. Vísir/EPA
Öryggisráð Litháen ákvað í dag að grípa aftur til herkvaðningar eftir að fallið var frá henni fyriir nokkrum árum. Tilefni breytinganna eru „breytingar á landfræðipólitískum aðstæðum“. Breytingin er þó sögð vera tímabundin til fimm ára.

Í öryggisráðinu eru forseti Litháen, forsætisráðherra, þingforseti, varnarmálaráðherra og yfirmaður hersins.

„Við verðum að styrkja varnir ríkisins,“ sagði Dalia Grybauskalté, forseti landsins, við fjölmiðla eftir fund öryggisráðsins. Þetta kemur fram á vef Lithuania Tribune. „Við þessar nýju landfræðipólitísku aðstæður, verður herinn að vera tilbúinn til að verja landið. Jafnvel á friðartímum.“

Herkvaðningin nær til karlmanna á aldrinum 19 til 26, en háskólanemar, einstæðir feður og menn með heilsukvilla eru undanskildir henni. Til stendur að kveða 3.000 til 3.500 manns í herinn á hverju ári.

Leiðtogar hersins segja að hermönnum hafi fækkað verulega frá því að herskyldan var afnumin í september 2008. Breytingin mun gera hernum kleyft að fylla í tómarúmið.

Á vef Reuters fréttaveitunnar segir að yfirvöld Litháen óttist að Rússland muni beita sér gegn ríkinu. Bætt hefur við þær áhyggjur á síðustu misserum og í desember hélt rússneski herinn stóra æfingu við landamæri Litháen. Þá segja greinendur að Rússar gætu beitt sömu aðferðum og í Úkraínu í Litháen til að draga úr stöðugleika þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×