Innlent

Ekki fé til að rannsaka undarlega hegðun loðnunnar

Svavar Hávarðsson skrifar
Fréttablaðið/Óskar
„Þetta er svo óvenjulegt að það er óforsvaranlegt að vera ekki á svæðinu við rannsóknir, og til að fylgjast náið með þessu,“ segir Sveinn Sveinbjörnsson, sérfræðingur Hafrannsóknastofnunar, um þróun loðnuvertíðarinnar, en loðnan heldur sig norður af landinu ólíkt því sem hún hefur löngum gert á þessum tíma árs.

Milljarða tugir

Eins og Fréttablaðið greindi frá í gær eru sjómenn ekkert allt of bjartsýnir á að 400.000 tonna loðnukvóti náist allur, en válynd veður og fyrrnefnd hegðun loðnunnar hafa sett strik í reikninginn. Um 70.000 tonn eru komin á land, eða tæp 20% samkvæmt stöðulista Fiskistofu. Hagsmunirnir eru gífur­legir – íslenski kvótinn er metinn á tugi milljarða.

Eitt spurningarmerki

Sveinn segist í raun ekkert geta sagt til um hvað sé raunverulega í gangi.

„Þetta er allt öðruvísi en við erum vanir að sjá og gerbreytt, virðist vera, þetta göngumynstur á loðnunni. Við höfum verið að sjá breytingar síðustu ár, t.d. í fyrra,“ segir Sveinn og bætir við að loðnan sem núna heldur sig fyrir norðan gangi lítið sem ekkert. „Ég veit ekki hvernig þetta endar satt best að segja.“

Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafró.vísir/anton
Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, segir, spurður um hvort ekki sé full ástæða til að halda úti hafrannsóknaskipi til rannsókna fyrir norðan, að það megi til sanns vegar færa. Rannsóknir á loðnunni séu mikilvægar í ljósi þeirra hagsmuna sem eru undir fyrir þjóðarbúið og breytingarnar á hegðun loðnunnar gefi fulla ástæðu til að þær séu rannsakaðar.

Sjá einnig:Loðnuvertíðin í voða

„Okkar mat á stofninum liggur fyrir, en á hinn bóginn er það rétt að mikilvægt væri að skilja ef um breytt hegðunarmynstur er að ræða. En þetta er víst sá stakkur sem okkur er sniðinn til hafrannsókna og þess utan margt annað sem við vildum rannsaka,“ segir Jóhann.

Sveinn Sveinbjörnsson.
Sneri loðnan við?

Sveinn segir að þegar Hafrannsóknastofnun lauk sínum mælingum í janúar þá hafi loðnan ekki verið komin austur fyrir Kolbeinseyjarhrygg, nema smá hreytur að Langanesi. Þá virðist sem loðnan hafi stoppað á göngu sinni og jafnvel snúið við og gengið vestur aftur. Fréttir frá flotanum sem var við veiðar bentu til þess. Nú sé veiðisvæðið vestan við Kolbeinseyjarhrygginn og Hafrannsóknastofnun hafi engar upplýsingar um gönguna til viðbótar við það sem sést af dreifingu loðnuflotans og fréttum frá skipstjórum hans.

„Ég veit ekki hvort við erum að fara inn í svipað ástand og upp úr 1920 þegar Bjarni Sæmundsson lýsir því að loðnugöngur hafi hætt að mestu leyti suður fyrir land um árabil. Hún hafi þá hrygnt fyrir norðan, en á þeim tíma var að hlýna mjög sjórinn við landið og Bjarni taldi að hrygningargöngurnar hefðu ekki komið suður fyrir,“ segir Sveinn.

Hvort þetta sé að gerast núna vill Sveinn ekkert segja til um. „Þess vegna er alveg hrikalegt að geta ekkert fylgst með þessu og maður veit ekki hvernig þessi vertíð endar. Svo gæti komið vestan­ganga, það er alveg hugsanlegt. Loðnan var svo vestarlega, og það má vera að loðnan sem er fyrir norðan gangi til baka og vestur fyrir. Hún gæti líka gengið austur fyrir eða hrygnt fyrir norðan. Við vitum bara ekkert um það.“

Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda.Vísir/GVA
Haldið í vonina

„Þetta er mesta breyting sem menn hafa séð í göngumynstri loðnunnar í seinni tíð, leyfi ég mér að segja,“ segir Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda. „Æ oftar hafa menn orðið varir við að loðnan hrygnir í einhverjum mæli fyrir norðan land, en hvort það sé að verða svona stór breyting núna er ekki gott að segja til um,“ segir Vilhjálmur sem bætir við að staðan sem er uppi kalli fram óvissu hjá útgerðarmönnum og sjómönnum sem séu óöruggir um hvernig best sé að beita sér við veiðarnar. „Við hljótum samt að ná þessu og ef hún fer suður fyrir, sem er ekkert útilokað að hún geri, þá getur það bent til þess að skipin hafi lengri tíma til veiðanna en vanalega,“ segir Vilhjálmur og vísar til þess að hefðbundin loðnuvertíð er iðulega á lokametrunum í kringum miðjan mars.

Vilhjálmur segir að haldi loðnan sig fyrir norðan þurfi það ekki að vera alslæmt, en svæðið sé vissulega erfiðara til veiða vegna veðurs og veiðisvæðið gefur sitt á hvað meiri möguleika til að ná loðnunni í grunnnót eða djúpnót. „Hún er ýmist á grunnu vatni eða djúpu, og það er líka sérstakt og erfiðara við að eiga.“


Tengdar fréttir

Loðnuvertíðin í voða

Loðnan gengur ekki austur fyrir land. Fiskifræðingar vita ekki hvað veldur. Eyjamenn gætu orðið af hundruðum milljóna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×