Innlent

Borgarstjóri vill ræða sameiningu við Seltirninga

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eru sjö talsins en síðasta sameining tók gildi 1. janúar 2013 þegar Álftanes og Garðabær sameinuðust. Reykjavík er langstærsta sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu með rúmlega 120.000 íbúa en um 63% landsmanna búa á höfuðborgarsvæðinu. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, segir hugmyndir um frekari sameiningu ekki stranda á Reykjavíkurborg.

„Ég er mjög opinn fyrir frekari sameiningu og ég held að Reykjavík sé það og hafi verið. Við hugsum þetta sem eitt svæði og þetta er auðvitað eitt búsetusvæði og eitt atvinnusvæði. Okkur finnst skipta mjög miklu máli að hugsa það sem heild, skipuleggja það sem heild og þróa það sem heild,” segir Dagur.

Nefnd á vegum þáverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra lagði til í skýrslu árið 2010 að skoðaðir yrðu kostir þess að sameina Reykjavík, Seltjarnarnes og Kjósahrepp.

Talsmenn þess að sameina Reykjavík og Seltjarnarnes hafa sagt slíka sameiningu vera hálfgert réttlætismál fyrir íbúa Reykjavíkur. Það sé til dæmis ósanngjarnt að skattgreiðendur á Seltjarnarnesi greiði lægra útsvar, fasteignaeigendur lægri fasteignaskatta og barnafólk lægri leikskólagjöld, en sömu hópar í Reykjavík. 

„Þetta er kannski barn síns tíma en við eigum mjög gott samstarf við Seltjarnarnes. Við sinnum til dæmis ýmissi félagsþjónustu og þjónustu við fatlað fólk við Seltirninga með sérstökum samningi. Við værum alveg til í að ræða sameiningu við Seltjarnarnes en við vitum að það eru skiptar skoðanir þeirra megin og þau hafa auðvitað rétt á því,” segir Dagur.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×