Innlent

„Ríkið á ekki að kaupa þýfi“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Formaður Heimdallar, Ingvar Smári Birgisson.
Formaður Heimdallar, Ingvar Smári Birgisson.
Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, leggst gegn því að ríkið kaupi erlend bankagögn sem gætu innihaldið upplýsingar um skattsvik, ef þeirra er aflað með ólögmætum hætti. Þetta kemur fram í ályktun frá félaginu.

Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri sagði í samtali við fréttastofu í gær að gengið verði til samninga við seljanda gagna um Íslendinga í skattaskjólum á grundvelli yfirlýsingar fjármálaráðherra.

Sjá einnig: Bryndís ætlar að ganga til samninga við huldumanninn

Í ályktun Heimdallar segir einnig að slík kaup myndu gefa afar slæmt fordæmi og þá sérstaklega ef greiða á einstaklingum verðlaunafé fyrir að afla sönnunargagna þegar löglegar heimildir sem ríkið hafi til öflunar sönnunargagna bresti.

„Það væri óviðunandi ef lögreglan verðlaunaði þjóf fyrir að brjótast inn í hús og afla sönnunargagna, þegar lögreglan fær ekki húsleitarheimild. Að sama skapi á ekki að borga tölvuþrjóti verðlaunafé fyrir að brjótast inn í fjármálastofnanir og stela upplýsingum,“ segir í ályktun Heimdallar.

Þess utan sé alls óvíst hversu nothæf gögnin séu og hvort þau muni skila tilætluðum árangri.

„Þá er einnig líklegt að skattféð sem notað yrði til kaupanna á gögnunum yrði notað til að fjármagna ólöglega starfsemi, þar sem ljóst er að gagnanna var aflað af aðilum við ólöglega starfsemi.

Félagið fordæmir skattsvik og telur mikilvægt að þau séu upprætt, en minnir á að tilgangurinn helgar ekki alltaf meðalið.“


Tengdar fréttir

Skattaskjólsgögnin: Tímalína

Svona var atburðarásin sem leiddi að því að ákveðið var að kaupa gögn um eignir Íslendinga í skattaskjólum fyrir 150 milljónir.

Sum skattaskjólsmálanna gætu verið fyrnd

Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri segir viðbúið að einhver mál í skattaskjólsgögnunum, sem standa íslenska ríkinu til boða, séu fyrnd en elstu málin eru fimmtán ára gömul.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.