Fótbolti

AC Milan mun yfirgefa San Siro og byggja sér nýjan völl | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Heimasíða AC Milan
AC Milan gerði í dag opinberar áætlanir sínar um byggingu á nýjum heimavelli félagsins og það er því orðið ljóst að Mílanó-liðið deila heimavelli ekki mikið lengur.

Kostnaður við byggingu nýja heimavallar AC Milan verður á bilinu 300 til 320 milljónir evra eða frá 45,3 milljörðum til 48,3 milljarða íslenskra króna.

Nýi völlurinn mun taka 48 þúsund manns í sæti og verður opnaður á 2018-19 tímabilinu. Völlurinn verður í Portello-hverfinu í miðborg Mílanó og frekar stutt frá San Siro, núverandi heimavelli AC Milan og Internazionale.

San Siro eða Stadio Giuseppe Meazza eins og hann heitir réttu nafni tekur meira en 83 þúsund áhorfendur og hefur alla tíð verið heimavöllur AC Milan.

AC Milan hefur því spilað á vellinum síðan árið 1926 eða 21 ári lengur en Internazionale sem byrjaði að spila á honum 1947.

Nýi völlurinn verður mjög náttúruvænn en hluti af rafmagninu á honum kemur frá sólarorku og þá munu menn reyna að nýtt regnvatn á klósettunum. Völlurinn verður líka alveg hljóðeinangraður þannig að stuðningsmenn liðanna munu ekki trufla nýju nágrannana með söngvum og öskrum sínum.

Á heimasíðu AC Milan er hægt að sjá myndband af því hvernig vellinum verður komið fyrir. Myndbandið er hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×