Fótbolti

Guðmundur í læknisskoðun hjá Nordsjælland

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guðmundur Þórarinsson var lykilmaður hjá U21 árs landsliðinu í síðustu undankeppni.
Guðmundur Þórarinsson var lykilmaður hjá U21 árs landsliðinu í síðustu undankeppni. vísir/daníel
Knattspyrnumaðurinn Guðmundur Þórarinsson, sem hefur leikið með Sarpsborg í Noregi undanfarin tvö ár, er á leið til danska úrvalsdeildarliðsins Nordsjælland.

Samkvæmt heimildum Vísis er Guðmundur í læknisskoðun hjá danska liðinu, en það hefur náð saman við Sarpsborg um kaupverð.

Selfyssingurinn, sem er 22 ára gamall, hefur spilað frábærlega fyrir Sarpsborg undanfarin tvö tímabil, en hann spilaði 59 af 60 leikjum liðsins í norsku úrvalsdeildinni síðustu tvö ár og alla sem byrjunarliðsmaður.

Guðmundur á að baki fjórtán leiki fyrir U21 árs landslið Íslands og tvo leiki fyrir A-landsliðið. Hann var í hópnum sem mætti Kanada í tveimur vináttuleikjum í síðustu viku.

Nordsjælland, sem er þjálfað af Ólafi Kristjánssyni, er í fimmta sæti dönsku úrvalsdeildarinnar eftir 17 umferðir. Deildin er í vetrarfríi, en hún hefst aftur 20. febrúar með leik Nordsjælland og Randers.

Hjá Norsjælland hittir Guðmundur fyrir tvo Íslendinga; Guðjón Baldvinsson, sem Ólafur fékk frá Halmstad í Svíþjóð, bakvörðin unga Adam Örn Arnarson sem kom til liðsins frá Breiðabliki og markvörðinn Rúnar Alex Rúnarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×