Emil Hallfreðsson lék allan leikinn þegar Verona bar sigurorð af Atalanta í ítölsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.
Argentínski framherjinn Javier Saviola skoraði eina mark leiksins á 53. mínútu en þetta var annar sigur liðsins í síðustu þremur leikjum.
Verona er í 13. sæti deildarinnar með 24 stig, sex stigum frá fallsæti.
Emil átti góðan leik á miðjunni hjá Verona en 90% af sendingum hans í leiknum rötuðu á samherja samkvæmt tölfræðisíðunni Whoscored.com. Emil fékk að líta gula spjaldið fjórum mínútum fyrir leikslok.
Hörður Björgvin Magnússon sat allan tímann á varamannabekknum þegar Cesena vann 1-2 sigur á botnliði Parma.
Cesena er þó enn í 19. og næst neðsta sæti deildarinnar, sjö stigum frá öruggu sæti.
Þá vann topplið Juventus sigur á Chievo með tveimur mörkum gegn engu. Paul Pogba og Stephan Lichtsteiner skoruðu mörk ítölsku meistaranna sem eru með átta stiga forystu á toppi deildarinnar. Roma getur minnkað forskotið niður í fimm stig með sigri á Fiorentina á útivelli í kvöld.
Úrslit dagsins:
Sampdoria 1-1 Palermo
Inter 0-1 Torino
Verona 1-0 Atalanta
Parma 1-2 Cesena
Juventus 2-0 Chievo

