Erlent

Stél vélarinnar komið af hafsbotni

Samúel Karl Ólason skrifar
Að finna svarta kassann er lykilatriði rannsóknarinnar og svo hægt sé að komast að því af hverju vélin brotlenti.
Að finna svarta kassann er lykilatriði rannsóknarinnar og svo hægt sé að komast að því af hverju vélin brotlenti. Vísir/AP
Stél flugvélar AirAsia frá Indónesíu sem brotlendi í Javahafi fyrir um tveimur vikum var híft af hafsbotni í nótt. Þetta er fyrsti hluti vélarinnar sem björgunarmenn ná úr hafi, en 162 voru um borð og létust allir.

Stélinu var náð á flot með stórum blöðrum, en ekki liggur fyrir hvort að svarti kassi vélarinnar hafi fundist. Að finna hann er lykilatriði rannsóknarinnar og svo hægt sé að komast að því af hverju vélin brotlenti.

AP fréttaveitan segir að brakið hafi verið á um 30 metra dýpi. Veður hefur tafið leitina að braki og líkum farþega en Suryadi Bambang Supriyadi, yfirmaður leitarinnar, segist staðráðin í að finna skrokk vélarinnar. Talið er að lík flestra farþega vélarinnar séu þar enn.

„Það er það sem fjölskyldurnar bíða eftir. Þau hafa grátið í fjórtán daga,“ sagði Supriyadi. Nú er búið að finna 48 lík.

Síðast heyrðist frá flugmönnum vélarinnar þegar þeir voru á leið frá Surabaya til Singapore. Þá báðu þeir um að fá að hækka flugið vegna óveðurs. Beiðninni var hafnað og skömmu seinna hvarf flugvélina af radar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×