Enski boltinn

Eiður Smári: Góð tilfinning að sjá boltann í netinu

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Eiður Smári
Eiður Smári vísir/getty
Eiður Smári Guðjohnsen skoraði fyrsta mark sitt í 14 ár fyrir Bolton þegar hann tryggði liðinu 1-1 jafntefli gegn Leeds í gær.

Eiður var tekinn í viðtal við heimasíðu Bolton eftir leikinn og var að sjálfsögðu hæst ánægður með markið sem hann skoraði úr vítaspyrnu í upphafi seinni hálfleiks.

„Það er frábært að skora og jafna metin en þetta hefði verið mun ljúfara en við hefðum tekið stigin þrjú. Um það snýst þetta,“ sagði Eiður Smári í viðtalinu sem má sjá hér að neðan.

„Það var góð tilfinning að sjá boltann í netinu,“ sagði Eiður Smári sem segist hafa tekið þó nokkur víti á sínum ferli.

„Ég treysti hæfileikum mínum til að taka víti. Er óttalaus í raun.

„Úrslitin eru vonbrigði því þetta var tækifæri fyrir okkur til að komast á sigurbraut á ný, sérstaklega hér á heimavelli. Tilfinningin í búningsklefanum er að við getum leikið betur en við gerðum.

„Við gleymdum okkur í baráttunni og slagsmálunum í stað þess að setja boltann á jörðina og spila.

„Án þess að ég vilji afsaka þetta þá voru aðstæður ekki hinar bestu. Það var rok og völlurinn var þurr. Það var erfitt að finna réttan takt í spilið. Við vitum að við getum betur,“ sagði Eiður Smári.

„Við byrjðum leikinn ekki nógu vel og þegar það gerist þá er manni refsað,“ sagði Eiður sem vildi ekki tjá sig um vítin tvö sem mörkin voru skoruð úr en Neil Lennon þjálfari Bolton sagði í viðtali í gær að bæði vítin væru gjöf.

Allt viðtalið má sjá hér að neðan en Eiður Smári talar meðal annars um hve ánægður hann er að vera kominn aftur til Bolton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×