Enski boltinn

Eyddi fimm sinnum meira í leikmenn en hefur unnið færri sigra en Moyes

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Louis van Gaal og David Moyes voru með jafn mörg stig eftir 21 umferð.
Louis van Gaal og David Moyes voru með jafn mörg stig eftir 21 umferð. vísir/getty
Louis van Gaal tapaði fyrsta leiknum í síðustu ellefu umferðum ensku úrvalsdeildarinnar sem stjóri Manchester United í gær þegar Southampton kom í heimsókn og felldi lærisveina hans, 1-0, á Old Trafford.

United-liðið hefur nú aðeins unnið einn af síðustu fimm leikjum sínum og innbyrt sex stig af fimmtán mögulegum, en með tapinu í gær fóru Dýrlingarnir upp fyrir strákana hans Van Gaal í þriðja sæti deildarinnar.

Sjá einnig:Southampton sótti sigur á Old Trafford | Sjáið markið

Manchester United er með 37 stig eftir 21 umferð í ensku úrvalsdeildinni, jafn mörg stig og liðið hafði undir stjórn Skotans David Moyes á sama tíma fyrir ári.  Á þeim tíma var allt í hers höndum hjá félaginu og var Moyes rekinn í apríl eftir tæpt ár í starfi.

Það sem meira er þá var Moyes búinn að vinna fleiri leiki á sama tíma í fyrra, en hann stýrði liðinu til sigurs í ellefu leikjum á meðan United hefur aðeins unnið tíu leiki undir stjórn Van Gaal.

United tapaði þó tveimur fleiri leikjum í fyrstu 21 umferðunum með Moyes í brúnni á meðan liðið hefur gert fleiri jafntefli undir stjórn Van Gaal.

Moyes náði sínum „árangri“ með töluvert ódýrara lið en Van Gaal, en Skotinn eyddi tæpum 30 milljónum punda í tvo leikmenn á meðan Van Gaal eyddi 145 milljónum punda í sex nýja leikmenn.

Hollendingurinn eyddir nær fimm sinnum meiri pening í nýja leikmenn og hefur úr breiðari sveit að velja - þó meiðsli hafi sett strik í reikninginn - en er ekki að gera betur en Moyes þegar litið er á töfluna.

Manchester United á nokkuð þægilega leiki framundan þannig liðið getur komist aftur á skrið, en það mætir QPR, Leicester, West Ham, Burnley og Swansea í næstu fimm leikjum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×