Fótbolti

Skiptir hann um félagslið og landslið í sama mánuðinum?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexander Milosevic er fyrirliði sænska 21 árs landsliðsins.
Alexander Milosevic er fyrirliði sænska 21 árs landsliðsins. Vísir/Getty
Alexander Milosevic, stendur heldur betur í stóræðum þessa dagana. Svo gæti farið að hann skipti bæði um  um félagslið og landslið í sama mánuðinum.

Alexander Milosevic er 22 ára og 191 sentímetra miðvörður sem hefur spilað með AIK undanfarin fjögur ár. Hann skrifaði undir þriggja og hálfs árs samning við tyrkneska félagið Besiktas 7. janúar síðastliðinn og nú ætlar kappinn einnig að skipta um landslið.

Alexander Milosevic hefur spilað fyrir yngri landslið Svía og á að baki tvo A-landsleiki. Hann spilaði einnig fimm leiki fyrir 17 ára landslið Serbíu frá 2008 til 2009.

Umboðsmaður hans hefur nú staðfest það í viðtölum við sænska fjölmiðla að landsliðsþjálfari Serbíu hafi haft samband og það lítur því allt út fyrir það að hann ætli að spila framvegis með serbneska landsliðinu.

Radovan Curcic, þjálfari serbneska landsliðsins, talaði við föður Alexander Milosevic sem heitir Goran Milosevic. Goran Milosevic kom til Svíþjóðar frá Serbíu en móðir Alexanders er Svíi af finnskum ættum.

Milosevic er einn af lykilmönnum sænska 21 árs landsliðsins sem er að fara að keppa á Evrópumótinu í sumar. Alexander Milosevic þarf því að taka stóra ákvörðun á næstunni en um leið og hann spilar fyrir A-landslið Serbíu þá er ekki aftur snúið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×