Innlent

Engin lyfjapróf hafa verið tekin hjá Reebok Fitness

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Mynd tengist frétt ekki beint.
Mynd tengist frétt ekki beint. Vísir/Getty Images
Líkamsræktarstöðin Reebok Fitness áskilur sér rétt til að setja viðskiptavini sína í lyfjapróf. Þetta kemur fram í skilmálunum sem þeir sem kaupa sér aðgang að stöðinni skrifa undir. Þar segir að prófið sé framkvæmt samkvæmt reglum og stöðlum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og að tekið sé mið af bannlista WADA.

Falli einhver viðskiptavinur Reebok Fitness á lyfjaprófi er honum vikið úr stöðinni og án þess að eiga rétta og bótum eða endurgreiðslu. „Meðlimur sem fellur á lyfjaprófi fær amk. 3ja mánaða bann frá aðgangi að stöðinni,“ segir í skilmálunum en þar kemur einnig fram að neiti viðskiptavinur að taka lyfjapróf jafngildi það að viðkomandi hafi fallið á slíku prófi.

„Nei við höfum ekki gert það. Þetta var í rauninni bara sett þarna inn sem verkfæri ef á þyrfti að halda,“ segir Ágúst Ágústsson, einn af stofnendum Reebok Fitness, aðspurður hvort einhver hafi verið krafinn um lyfjapróf. Farið var yfir framkvæmd ÍSÍ á sambærilegum prófum en að ekki hafi verið haft samráð við Persónuvernd. „Nei það gerðum við ekki.“

Óljóst er hvort að skilmálarnir samrýmast lögum um persónuvernd en málið hefur ekki komið til skoðunar hjá Persónuvernd. „Við höfum ekki fjallað um þau mál,“ segir Þórður Sveinsson, forstöðumaður lögfræðisviðs Persónuverndar, aðspurður um málið.

Dæmi eru um að fyrirtæki hafi sett starfsmenn sína í lyfjapróf. Það hefur meðal annars verið gert í verksmiðju Norðuráls. Þá voru ellefu sjómenn reknir frá Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum eftir að þeir féllu á lyfjaprófi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×