Enski boltinn

Njósnari Man. Utd rekinn fyrir kynþáttaníð

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Daninn vinnur ekki fyrir United framar.
Daninn vinnur ekki fyrir United framar. vísir/getty
Enska stórliðið Manchester United rak einn af njósnurum sínum í Evrópu eftir að kom í ljós að hann hefði verið með kynþáttaníð í garð múslima á Facebook-síðu sinni.

Maðurinn er danskur og heitir Torben Aakjær, en hann starfar í Kaupmannahöfn og hefur unnið fyrir United síðan 2011. Hann var áður á mála hjá Hamburg.

Á Facebook-síðu Aakjærs voru td. Moskur, bænahús múslima, sögð vera samsæriskenningahús og þá vildi hann setja meiri mannskap á landamærin inn í Danmörku til að halda öllum „skítnum“ í Evrópu frá landinu.

Einnig mátt á Facebook-síðu Danans finna stuðningsyfirlýsingu við hægri sinnaðan stjórnmálaflokk í Danmörku þar sem hann birti mynd af sex svínum og skrifaði: „Það er kominn tími til að senda leynivopnin okkar á múslimana.“

Aakjær staðfesti við enska blaðið Guardian að um hans Facebook-síðu væri að ræða, en hann hefði aldrei notað orð eins og skítur þegar talað var um íbúa í austur-Evrópu.

Hann vildi meina að einhver, sem hefði eitthvað gegn honum eða Manchester United, hefði brotist inn á aðganginn hans. Hann eyddi svo öllum póstunum eftir að blaðamaður Guardian hafði samband við hann.

„Félagið fékk sönnunargögn frá Guardian, hóf strax rannsókn á málinu og hefur nú slitið samstarfi við herra Aakjær. Manchester United er félag sem líður ekki svona hegðun,“ segir í yfirlýsingu frá enska félaginu.

Hér má lesa alla frétt Guardian um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×